Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 279
Sigurður Júl. Grétarsson
skólanum“12 og Kennarasambandið telur að „stöðugt verð[i] að meta starfið svo að unnt
sé að gera sér grein fyrir því hvernig það þróast."13 Enn lengra er gengið í Aðalnámskrá
grunnskóla en þar segir meðal annars:
Mat á skóla og skólastarfi tekur ekki aðeins til námsárangurs og kennsluaðferða.
Nauðsynlegt er einnig að meta reglulega starfsáætlun/skólanámskrá, samhengi í
námi, aðstöðu, gögn og samskipti innan skólans, svo og tengsl hans við aðrar
stofnanir og einstaklinga. Mat á skólastarfi er einn grundvallarþáttur skólaþróunar og
hér sem annars staðar gegnir starfsfólk skóla lykilhlutverki.14
Og um námsmat segir á sama stað:
Með því að meta stöðu nemenda í upphafi námstímabils má fá gagnlegar upplýsingar
sem auðvelda skipulag kennslu og gera námið markvissara. Námsmat þarf einnig að
fara fram jafnt og þétt á námstímanum. [...] Upplýsinga um námsgengi verður [...] að
afla jöfnum höndum með mati sem fram fer í hverri kennslustund og mati sem nær til
lengri tímabila, t.d. skólaárs.15
Af þessum orðum námskrárinnar er Ijóst að yfirvöld í menntamálum ganga jafnvel enn
lengra en metnaðarfull stefna kennara sjálfra gerir ráð fyrir. Til þess er ætlast af
kennurum að þeir meti í sífellu árangurinn af eigin starfí. Sumum kann að vera dálítill
léttir að því að, eins og segir í námskránni, eru „sum markmið [...] þess eðlis að ekki
kemur fram fyrr en seinna í lífinu hvorl þeim var náð eða ekki. Þau verða því ekki
metin með venjulegu námsmati".16 Þó má líta svo á að þar með sé kennurum í þokka-
bót gert að leita uppi nemendur sína „seinna í lífinu" og athuga hvort hinum flóknu
markmiðum hafi þá verið náð.
Engri rýrð er kastað á kennara þó að efast sé um að venjulegur kennari komi því
við, auk viðamikilla kennslustarfa, að sinna öllu því mati sem krafist er af honum í
aðalnámskrá. Þar er krafist nánast ofurmannlegra afkasta og kunnáttu af kennurum og
miklu meira en þess sem unnt er að ná fram með hefðbundnum bekkjaprófum, jafnvel
þó að þau séu vel úr garði gerð: Krafist er námsmats í upphafi kennslutímabils, mats
sem nær til lengri tímabila, mats úr hverri einustu kennslustund, mats á starfsáætlun,
mats á samhengi í námi, á aðstöðu og gögnum, á samskiptum innan skólans og á
tengslum hans við aðrar stofnanir og einstaklinga. Það sér hver maður að ofætlan er að
kennarar sinni þessu öllu þannig að það uppfylli eðlilegar kröfur sem gerðar eru til
mælinga. En kennurum og yfirvöldum hlýtur að vera í mun að sú vitneskja um
skólastarf, sem allir virðast sammála um að sé nauðsynleg, sé traust og áreiðanleg. Til
að tryggja það hljóta hlutlægar aðferðir úr félagsvísindum að gegna veigamiklu
hlutverki, enda ekki traustari reynsla af öðrum aðferðum við að afla haldgóðrar vitneskju
um atferli, hugsun, samskipti og færni.
Skólastefna 1990:11.
* 3 Sama rit, bls. 28.
Aðalnámskrá 1989:20.
* 5 Sama rit, bls. 19.
1 6 Sama rit, bls. 20.
277