Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 150
Ingólfur Á. Jóhannesson
einstaklingur eða hópur hefur margvísleg tengsl við þær hugmyndir og efnislegu hluti
sem eru gjaldgeng á þessum vettvangi.3 Bourdieu notar líkingu um auðmagn (eða
kapítal4 * eins og ég kýs að segja) til að tákna þetta. Hann lítur svo á að stöðu sérhvers
einstaklings eða hóps í samfélaginu sé hægt að skilgreina út frá þeirri stöðu sem
einstaklingurinn er í á ýmsum vettvangi í samfélaginu og með hliðsjón af þeim
tegundum kapítals sem er gjaldgengt á hverjum vettvangi. Þetta eru einkum fjármagn
(af ýmsu tæi), menningarauður og félagslegt kapítal ásamt táknrænu (symbólísku)
kapítali (orðstír, virðingu, frægð eða einhverju í þá veru) sem er það form sem hinar
fyrrnefndu gerðir kapítals þurfa að breytast í til að öðlast gildi.3 Bourdieu hefur raunar
þróað aðferðir til að reikna út á tölfræðilegan hátt stöðu einstaklinga á vettvangi, þótt
það sé ekki reynt hér.6
Lögð er áhersla á að greina innbyrðis tengsl einstaklinga og hugmynda á þeim
vettvangi sem er til athugunar. Þannig er sérhver sem þátt tekur í umræðu, t.d. um
menntaumbætur, á þeim forsendum er hafa skapast á hinum tiltekna vettvangi (þ.e.
hvað gildir sem kapítal) með í leiknum. Gildir þá ekki síður að hafa tilfinningu (sans)
fyrir því hvað gæti orðið kapítal og hvernig það gæti orðið kapítal heldur en að fylgja
skilgreindum reglum. Leikurinn snýst ekki síst um vald yfir því hvaða hugmyndir
öðlast brautargengi. Það er eðli hugtaksins félagslegur vettvangur að „mörk“ slíks
vettvangs eru sveigjanleg enda sjaldan hægt að vita nákvæmlega hvar umræður um
tiltekið efni hafa farið fram né stjórna því hvar slíkar umræður muni fara fram.
Nákvæmasta skilgreiningin á þeim vettvangi sem hér er til athugunar myndi líklega
vera vettvangur umbótaumræðu.
I sagnfræði er það deiluefni hvort tilviljanir eða lögmál ráða gangi sögunnar. Oft
finna sagnfræðingar svo skýr mynstur í sögunni að ólíklegt þykir að um tilviljun eina
geti verið að ræða. Eitt slíkt mynstur er nútímavæðingin (móderniseringin) á
Vesturlöndum og þær hugmyndir sem henni tengjast. Foucault hefur rannsakað
hugmyndir Vesturlandabúa um glæpi, refsingar, andlegt heilbrigði o.fl. í þessu Ijósi.7
Hann telur að straumar nútímavæðingar hafi gefið tilefni til tiltekins fyrirkomulags
hluta og venja um framsetningu hugmynda og að þessar venjur móti síðan mismunandi
samstæð þrástef.8 Slfk þrástef (hugmyndir, kenningar, fullyrðingar) verða síðan eins og
rauður þráður í umræðu og deilum nútímans. Hugmyndir, eða þrástef, hafa ekki
3 Félagslegur vettvangur er hér notað fyrir hugtakið „social field“ (IÁJ 1991:20-21 og
32-4).
^ Sá skoðunarmáti sem tengist hugtakinu kapítal byggist m.a. á því að finna hvaða
hugmyndir, eða þrástef, sbr. hér á eftir, hafa mest vægi og hvar þær eru helst
gjaldgengar. Samlíkingin er margslungin: stundum er eins og hugmynd sé líkust
gjaldmiðli sem flest má kaupa fyrir á þeim stöðum þar sem hann er tekinn gildur; í
öðrum tilvikum vísar hugtakið til félagslegra tengsla einstaklingsins og þeirra
áhrifa sem hann eða hún getur haft í gegnum þau.
Bourdieu 1985, einkum bls. 724-726.
6 Sjá t.d. Bourdieu 1984 og 1988.
7 Sjá t.d. Foucault 1965, 1972 og 1979.
^ Foucault 1972:64. Orðið þrástef, sem hér er haft um hugtakið „discursive theme"
sem ég notaði í doktorsritgerð minni (sjá nánar útskýringu í IÁJ 1991, 2. kafla), er
fengið að láni hjá Wolfgang Edelstein (1988:10).
148