Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Síða 127
SIGURÐUR KONRAÐSSON
þess eru kaflar um málrækt, mállýskur og stutt málsögulegt yfirlit. Úr orðaskrá er
oft vísað í síðari hluta. Bókin er skýr og fróðleikur allur aðgengilegur. Mikill fengur
er í bók af þessu tagi. En þó er nauðsynlegt að staldra við og spyrja hvort bókin
henti í grunnskólum. Er hún of þung? Er hún of efnismikil? Eru þau hugtök í henni
sem mestu máli skipta? Til þess að svara spurningum af þessu tagi þyrfti að vera
komin lengri reynsla af bókinni. Þó verður ekki annað sagt en liugtökin séu ágæt-
lega skýrð og ættu nemendur á unglingastigi að hafa full not af orðaskránni. Text-
inn í síðari hluta er hins vegar á stundum ítarlegri en gengur og gerist, a.m.k. sé
miðað við kennslubók Björns Guðfinnssonar (1958) eða bækur Skúla Benedikts-
sonar (sjá t.d. 1979). Að því hefur verið fundið að Málvísibækurnar (sjá Indriða
Gíslason 1989, 1992, 1993) hafi verið þessu marki brenndar, umræða um mál og
málfræði sé of mikil og verkefni af skornum skammti. Rétt er að nýmælið í
Málvísibókunum er að ekki er megináhersla á greiningu og reglur, en í bókunum er
auðvelt að sjá þá tilhneigingu sem rís enn hærra í Mályrkju 1 og II. Hér er með
öðrum orðum leitast við að fara að fyrirmælum Aðalnámskrár (1989) um heildstæða
móðurmálskennslu. Nú mun Aðalnámskrá grunnskóla hins vegar komin í endur-
skoðun og ber að fagna því, enda tímabært að huga að nýjum áherslum þegar líður
að tíu ára afmæli. Spennandi verður að fylgjast með framvindu mála á þeim
vettvangi. Verður t.d. dregið úr áherslu á heildstætt móðurmálsnám, eða verður
lögð enn ríkari áhersla á það hér eftir en hingað til?
Þegar nýtt kennsluefni í móðurmáli kemur á markað er venja að þegja yfir því
um stund og helst lengi. Hér er e.t.v. komið að viðkvæmu máli sem teygir anga sína
upp í háskólana. Spyrja má hvernig þeir standa sig í að mennta móðurmálskennara.
Háskóli íslands sér framhaldsskólum einkum fyrir starfsmönnum, en Kennara-
háskóli íslands og Háskólinn á Akureyri (frá 1996) mennta grunnskólakennara.
Langflestir kennarar í grunnskólum hafa brautskráðst frá Kennaraháskóla Islands.
Því hljóta sjónir manna að beinast að honum komi til þess að grunnskólakennarar
verði gagnrýndir fyrir móðurmálskennslu og e.t.v. full lítinn sveigjanleika í baráttu
við málfræði og móðurmál almennt. Ekki verður hér fjallað um áherslu á íslensku í
Kennaraháskóla íslands en vísa má í Sigurð Konráðsson (1992) þar sem dregið er í
efa að kennarar sem brautskrást úr skólanum með B.Ed.-próf hafi í öllum tilvikum
nægilega þekkingu til að kenna íslensku í grunnskóla og fullnægja kröfum Aðat-
námskrár (1989). Endurmenntunardeild skólans hefur haldið nokkur námskeið í
móðurmáli, en auðvitað hefur aðeins brot starfandi kennara átt þess kost að sækja
þau.
Þegar yfirvöld menntamála gefa út kennslubækur af því tagi sem hér hefur
verið rætt um er nauðsynlegt að þeir sem sinna endurmenntun bjóði námskeið
handa starfandi kennurum. Kynna þarf nýjar aðferðir í kennslu, og það sem afdrifa-
ríkara er - aðferðir sem krefjast miklu meiri þekkingar á íslensku, bókmenntum,
málfræði, ritun og almennum málvísindum en vænta má að kennarar búi almennt
yfir. Auðveldara er að kenna málfræði með hefðbundnum aðferðum (t.d. greiningu
eða eyðufyllingum) en með því að kenna allt í senn, án þess að veigamikil atriði
verði útundan. Hér þarf mikla skipulagningu - og endurskipulagningu.
125