Saga - 1968, Blaðsíða 131
ÞÆTTIR ÚR LANDVARNASÖGU
127
afgiftir komnir voru, með þeirra mönnum, og vildi höf-
uðsmaður engum burtfararleyfi gefa fyr en vitnaðist,
hvert þessir ránsmenn héldu.
En höfuðsmaður skikkaði öllum vel vara á taka á
sinni bestillingu til varnar. Svo og var Jóni Ólafssyni og
þeim frönsku bífalað í skansinn að fara og (á) stykkj-
unum vara að taka og affýra, nær þyrfti. En höfuðsmað-
ur með sínum þénurum og mörgum íslenzkum í stórum
látúnssöðlum á landi riðu til umsjónar og aðgætni með
löngum stöngum, svo sem hertygjað fólki væri að sjá, þá
sólin á söðulbryggjurnar skein.“4)
Misjafnlega eru Islendingar hneigðir til hermennsk-
unnar. Gvendur Stefánsson læddist burt úr víginu á laun
og flengreið norður í land að sögn Grímsstaðaannáls, en
Jón Indíafari vildi láta Tyrkjann smakka meiri eld. Og þótt
Rosenkrantz hlyti ámæli af slælegri framgöngu sinni á
Bessastöðum, ber að varast að dæma of fljótt. Ekki var
betra að vera of stríðsóður og reita ræningjana til reiði.
Ekki voru það allt biturleg vopn né sterkar verjur, sem á
glampaði, þegar sveinar riðu fram og aftur um flötina, veif-
andi pjátri og löngum stöngum. Það var engin úrvals her-
deild, sem varði hirðstjórasetrið á íslandi.
Vestmannaeyingum gekk öllu ver að verjast illþýðinu.
1 Reisubók Ólafs Egilssonar segir svo:
„Fyrst er vér spurðum í Vestmannaeyjum til ræningja
í Grindavík, voru hjá oss nóg stóryrði og óttaleysi, eigi
sízt hjá þeim, sem yfir voru settir, með erfiði og við-
búning á landi og við Dönsku-húsin, einnig úti á skip-
um. Átti þetta að gerast með stórri framsýni, en sum-
ir gátu til, að íslenzkir mundu ei viðstanda, ef nokkuð
bæri að. En þeir vildu það ei heyra og sögðust hvergi
mundu flýja. Stóð svo þessi viðbúnaður þar til að menn
spurðu, að þeir væri burt frá landinu."5)