Tímarit Máls og menningar - 01.03.1952, Blaðsíða 75
UM SKÓLAMÁL
65
ekki að ræða um nema leið þekkingar og orðsins til að ná þessu marki,
þá er að örva þekkingarþrána, svo að nemandinn haldi áfram sjálfs-
menntun að skólanáminu loknu. Það er betra að hafa öðlazt þekkingar-
þrá og litla þekkingu en þekkingarhrafl og enga þekkingarþrá.
Móðurmálið er höfuðnámsgrein skólanna. En í barnaskólum og líka í
framhaldsskólum er full þörf á breytingum. Stafsetningarkennslan er orð-
in of rúmfrek og málfræðin máldrepandi og sáldrepandi stagl. í barna-
skólunum ætti ekki að kenna hóti meira í henni en brýn nauðsyn krefur.
Ég var svo heppinn að njóta kennslu Sigurðar Guðmundssonar
skólameistara tvo vetur í kennaraskólanum. Hann kenndi ekki mikið
málfræði, lítið greiningu. En hann kenndi nemendum sínum að skilja
og skrifa íslenzkt mál og brjóta hugsun til mergjar í skáldskap, bæði
sögum og Ijóðum. Rask er kallaður í íslandssögu barnaskólanna allra
málfræðinga mestur. Væri ekki eins rétt að kalla hann bara málamann.
Ætli hann hafi eytt miklum tíma í þá iðju að greina orð? Ég veit það
ekki. En hann sagði um íslenzkunám sitt: „Ég læri íslenzku til þess að
hugsa eins og maður, til að útrýma þeim kotungsanda, sem mér hefur
verið innrættur frá blautu barnsbeini.“
VI
Margt hefur áunnizt í skólamálum á undanförnum aldarhelmingi,
þótt ýmsu sé stefnt öfugt. Það getur verið, að það taki okkur enn ára-
tugi að losna við aldagamalt lexíunámsfargan, sem ekki hentar í nú-
tíma þjóðfélagi, en var réttmætt meðan annað þekktist ekki.
Einn menntaskólakennari lét sér nýlega þau orð um munn fara, að
þeim færi fækkandi hér í Reykjavík, sem hæfir væru til bóknáms.
„Þetta fólk, sem fær sínar stúdentshúfur, kann andskotann ekki neitt,“
bætti hann við. Ég álít, að ekki sé um það að ræða, að gáfnafar unga
fólksins sé verra, heldur hitt, að bóknámið sé að lækka í tign. Það hef-
ur nógu lengi verið lofað á kostnað vinnunnar. Ekki er nóg að bókmennta
þjóðina aðeins, hún verður líka að menntast í starfi. Starfið, bæði hið
andlega og líkamlega, er hinn sannasti menningargrundvöllur.
Nútíma æskan vill raunhæft starf og framkvæmdir. Sé hún kvödd til
happadrjúgra verka, mun hún sýna áhuga og beita sér, þótt hún þyrfti að
nota bera hnúana, hvað þá heldur, ef tækni nútímans væri beitt í þjón-
ustu lífsins, mönnunum til farsældar, ættjörð og öllum heimi.
Tímarit Máls og menningar, 1. h. 1952
5