Tímarit Máls og menningar - 01.03.1952, Blaðsíða 16
HALLDÓR KILJAN LAXNESS:
Heima og heiman
Að fljúga hér og í SvíþjóS
Hjá því fer ekki að íslendíngur sem dvelst að öðrum þræði ytra
haldi áfram að sjá land sitt í skuggsjá annarra landa; í gegnum þau, ef
svo mætti að orði kveða; og önnur lönd gegnum land sitt þá er hann
dvelst heima. Eg held þetta sífelda samanburðarsjónarmið sé íslendíng-
um líka náttúrlegra en öðrum mönnum, fyrir þá sök að Island stendur
eitt sér öðrum löndum fremur, og af landfræðilegri sérstöðu leiðir „sér-
legleika“ á öðrum sviðum; íslendíngur erlendis hugsar við annað
hvert fótmál að mikið sé nú þetta eða hitt öðruvísi en heima; og þegar
heim er komið: mikið er þetta öðruvísi en í útlöndum. Sjálfsagðir hlut-
ir sem við segjum útlendíngum af okkur orka á þá einsog sjómanna-
sögur.
Eg ætla að taka lítið dæmi af Svíþjóð, því landi þar sem almennar nauð-
synjar virðast lagðar uppí hendur mönnum meir en í flestum löndum
öðrum, við lágmarksgjaldi. Eg veit ekkert land þar sem fleiri upp-
fundníngar á alskonar áhöldum, smáum og stórum, eru á boðstólum,
mönnum til hægri verka í öllum greinum. Það er til dæmis ótrúlegt
hve mörg patent alskonar geta verið saman komin í vanalegu sænsku
eldhúsi. Ef einhversstaðar er þrep innanhúss eða utan, þá er fest upp
spjald og prentað stórum stöfum til að forða slysum: Takið eftir, eitt
þrep niðrávið (eða uppávið). Eg kom í skóbúð í Stokkhólmi þar sem
fjöldi manna var að kaupa sér á fæturna, og ekki hægt að afgreiða
nærri alla í einu. Þar var nú samt ekki verið að láta menn standa í
halarófu útí nepjunni í heila nótt. Nei menn feingu númer í dyrunum,
og voru síðan afgreiddir eftir töluröð; mönnum var boðið að sitja í
bekkjum og stólum uns röðin kom að þeim, og tónlistamenn hafðir til að
hafa af fyrir fólkinu meðan það beið; þarna var til dæmis alveg skín-
andi listamaður við flygilinn.