Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Page 36
Thomas Ahrens
Pilturinn, sem fór útí heiminn
til að læra að hræðast
„Er það gott? spurði ég. Börnum þykir bragðið alltaf
ljúffengast hjá öðrum. Hinsvegar taka þau fljótt eftir því,
hvað er að þar líka. Ef allt væri gott heima, þá væru þau ekki
svona viljug til að fara burt. Þau finna oft snemma til þess að
bæði hér og þar gæti margt verið öðruvísi."
Ernst Bloch.
List og ímyndunarafl
Þegar rætt er um listræn vandamál láta varla aðrir til sín heyra en þeir sem
gert hafa listina að sérgrein sinni. Því er það að slíkum mönnum hættir til
að einblína um of á sérstæði listarinnar og einangra hana frá öllum öðrum
sviðum mannlegs lífs. Barnaleikhús á Islandi og víðar í Evrópu hafa orðið
illa fyrir barðinu á slíkum misskilningi.
Þórunn Sigurðardóttir skrifaði á sínum tíma grein til birtingar í riti um
barnaleikhús á Norðurlöndum, sem gefið var út af Norræna Menning-
armálasjóðnum. Greinin, sem nefnist „Leiklist fyrir börn á Islandi“, birtist í
Þjóðviljanum 13.-14. desember 1980. Þareð grein Þórunnar sýnir okkur
áðurnefndan misskilning í hnotskurn, langar mig að vitna til nokkurra
atriða, sem þar koma fram. I greininni segir m. a.:
Kröfur til efnis og boðskapar urðu um tíma mjög háværar og jafnvel enn
fyrirferðarmeiri en kröfur um bætta listræna framsetningu.
Þar er kominn sá gullkálfur sem listamennirnir dansa í kringum, atgeirinn
ógurlegi sem gagnrýnandinn vegur með, eða heggur í vindinn með ef svo
ber undir: „listrtenn“.
Jafnsjálfsagt og það þykir að beita þessu orði, þannig virðist það
ennfremur sjálfsagður hlutur að sneiða með öllu hjá því að skýra merkingu
þess. Hvað skyldi vera átt við með orðunum „list“ og „listrænn"?
Skyldi þar vera um að ræða listviðhorf rómantísku stefnunnar, sem gerði
ráð fyrir því að raunverulegan og sálrænan uppruna listar og listsköpunar
mætti rekja til ímyndunaraflsins?
Eða er hér átt við viðhorf Aristótelesar og natúralisma seinni tíma,
þarsem gert er ráð fyrir því að listin sé sprottin af eftirlíkingarhvötinni?
402