Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Blaðsíða 107
Höfundurinn sem framleiðandi
stoðarleikara og háþróaðri sviðstækni vinnur ekki síst gegn framleiðendun-
um vegna þess að það þröngvar þeim til að taka þátt í þeirri vonlausu
samkeppni sem kvikmyndin og útvarpið hafa ýtt leikhúsinu út í. Þetta
leikhús — hvort sem það er ætlað til menntunar eða afþreyingar; þetta
tvennt er samtvinnað og bætir hvort annað upp — er leikhús fyrir þjóðfé-
lagshóp sem lifir í vellystingum og gerir allt sem í hendur honum kemst að
þætti í nautnalífi sínu. Staða þess er töpuð. En sama er ekki að segja um
leikhús sem leitast við að notfæra sér og læra af nýjum fjölmiðlum í stað
þess að keppa við þá, í stuttu máli lagar sig að þeim. Epíska leikhúsið hefur
gert þessa aðlögun að stefnumiði sínu. Það er, miðað við núverandi
þróunarstig kvikmyndar og útvarps, leikhús nútímans.
I þágu þessarar aðlögunar einbeitti Brecht sér að upprunalegustu þáttum
leikhússins. Segja má að hann hafi látið sér nægja pall í stað sviðs. Hann
forðaðist rúmfreka atburðarás. Þannig tókst honum að breyta sambandinu
milli sviðs og áhorfenda, texta og uppfærslu, leikstjóra og leikara. Hann
lýsti því yfir að epíska leikhúsið ætti fremur að sýna aðstæður en rekja
atburðarás. Og eins og við sjáum bráðum sýnir það aðstæðurnar með því
að rjúfa atburðarásina. Eg minni hér á söngvana sem einmitt hafa það að
aðalhlutverki að rjúfa atburðarásina. Með því að rjúfa atburðarásina notar
epíska leikhúsið aðferð sem þið þekkið úr kvikmyndum og útvarpi, dag-
blöðum og ljósmyndun frá síðustu árum. Eg á við klippinguna: það sem
skeytt er inn í ákveðið samhengi brýtur það upp. Leyfið mér að benda á
dæmi til að skýra hvers vegna þessi aðferð á hér sérstakan, já og raunar
fyllsta, rétt á sér.
Með því að rjúfa atburðarásina — og vegna atburðarásarinnar kallaði
Brecht leikhús sitt epískt —, er stöðugt barist gegn því að áhorfendurnir
láti blekkjast. Slík blekking er nefnilega ótæk í leikhúsi sem ætlar að fjalla
um þætti raunveruleikans eins og um tilraun væri að ræða. Aðstæðurnar er
að finna að lokinni þessari tilraun, en ekki við upphaf hennar. Þetta eru
okkar aðstæður í hvaða formi sem þær nú birtast. Þær eru ekki fluttar nær
áhorfandanum, heldur fjær honum. Hann þekkir þær ekki sem raunveru-
legar aðstæður með því að lifa sig inn í þær, eins og í leikhúsi natúralism-
ans, heldur með því að verða furðu lostinn. Epíska leikhúsið setur ekki
aðstæður á svið, heldur uppgötvar þær. Aðstæðurnar eru uppgötvaðar með
því að rjúfa atburðarásina. Þetta rof skapar ekki spennu, en hefur á hinn
bóginn skipulagningarhlutverki að gegna. Með því er atburðarásin stöðvuð
og áhorfandinn þarmeð neyddur til að taka afstöðu til þess sem átt hefur
sér stað og sömuleiðis verður leikarinn að taka afstöðu til hlutverks síns.
Ég ætla að sýna ykkur með einu dæmi hvernig Brecht breytir með vali og
notkun látbragðs þeirri klippitækni, sem gegnir veigamiklu hlutverki í
473