Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 71
Bókmenntagagnrýni dagblaðanna
einhverja algilda mælistiku og mat þeirra sé niðurstaða fullkomlega hlut-
lægrar könnunar sem ekki verði deilt um.12 Þannig fær lesandi á til-
finninguna að í stað einstaklings með eigin skoðanir standi á milli lesandans
og skáldverksins einhver ógagnsær og óræður hluti bókmenntastofnunar-
innar svonefndu og tali í gegnum gagnrýnandann. Dómi hans verði ekki
hnikað, því hann sé að segja sannleikann um verkið. Franski strúktúralist-
inn Roland Barthes, sem afhjúpað hefur ýmsar goðsagnir nútímamenning-
ar, þar á meðal margar sem tengjast gagnrýni, bendir réttilega á að hlutverk
gagnrýni sé ekki að uppgötva einhvern „sannleika“ í viðkomandi verkum —
hann er uppgötvaður af hverjum lesanda fyrir sig — heldur að vinna úr
samhengi textans (innbyrðis og út á við) ákveðna rökstudda niðurstöðu.
Gagnrýnandinn verður þá að koma fram sem einstaklingur og sem for-
svarsmaður þessarar niðurstöðu, hann verður að birtast í gagnrýninni sem
ábyrgur maður fyrir eigin skoðunum.13 Peter Hamm er á svipuðu máli um
stöðu gagnrýninnar í grein um þýska blaðaritdóma:
„Gildismat", segir Northorp Frye, „er ætíð smekksmat". En þar sem einungis
nokkrir stórgagnrýnendur upplýsa áhugafólk um bókmenntir — eins og hér
í V-Þýskalandi — hlýtur slíkt óhjákvæmilega að koma svo fyrir sjónir sem
væru dómar þeirra hlutlægir („objektífir") dómar, svo fremi þessir gagnrýn-
endur láti ekki uppi hvað leitt hafi þá persónulega að þessum og einmitt
þessum dómi, svo fremi þeir gangist ekki við að sjónarmið þeirra sé einstakl-
ingsbundið („súbjektíft“).M
„Stórgagnrýnendur“ kallar Hamm þann hóp ritdómara sem starfar fyrir
útbreiddustu og áhrifamestu blöðin og sem jafnframt hefur gagnrýni að
aðalatvinnu. A Islandi er líklega fátítt að gagnrýniskrif séu stunduð sem
aðalstarf, en hitt er ljóst að það er tiltölulega lítill hópur manna sem ár
hvert skrifar opinbera gagnrýni og því hygg ég að orð Hamms eigi ekki
síður við okkar þjóðfélag en það þýska.
Að mínu mati mega ritdómarar almennt við því að verða minni „dóm-
arar“ og meiri einstaklingar í skrifum sínum. Ritdómarinn verður síður en
svo minni gagnrýnandi þó að hið ópersónulega „yfirvald" hverfi úr
gagnrýni hans. Hann þarf alls ekki að vera með neinn undanslátt, eða horfa
fram hjá því sem honum mislíkar eða hann álítur illa gert í skáldverki. En
hann þarf að gera sér ljóst hvenær slíkt álit er sprottið af hans eigin smekk á
skáldskap og hvenær um er að ræða missmíð sem hann álítur að hægt sé að
greina sem slíka út frá almennum forsendum. I fyrra tilfellinu þarf hann að
gera grein fyrir smekk sínum svo lesanda sé ljóst frá hvaða sjónarhóli slíkt
mat kemur, og í síðara tilvikinu þarf hann að styðja mál sitt góðum rökum,
þó svo þau verði auðvitað sjaldan endanleg og óhaggandi.15
437