Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 77
Bókmenntagagnrýni dagblabanna
Hvernig nær þessi byggingargalli að rýra svo gersamlega gildi þeirrar
frásagnar? Eða, ef henni er ekki komið nægilega vel til skila til að hún „fái
líf og gildi í sjálfu sér,“ eins og Olafur víkur að í greinarlok, hvar brestur þá
höfund frásagnarmátt? — Hér skortir tilfinnanlega ljósa afstöðu ritdómar-
ans gagnvart því efni sem óneitanlega er í miðpunkti þeirrar sögu sem þó er
sögð, til að lesandi fái áttað sig á málflutningi hans. Þessi ritdómur, eins og
flestir ritdómarnir um þessa bók, hefði að skaðlausu mátt verða persónu-
legri; gagnrýnandinn hefði mátt koma betur fram í dagsljósið með skoðan-
ir sínar.
Haustið er rautt
Við víkjum næst að umfjöllun sem fyrsta bók ungs höfundar hlaut á síðasta
ári: Haustið er rautt eftir Kristján Jóhann Jónsson.
Skipta má ritdómum um þessa bók gróflega í tvo flokka. Annars vegar
eru tveir gagnrýnendur sem finnst bókin athyglisverð og nýstárleg og gera
nokkuð ítarlega úttekt á henni (Rannveig G. Agústsd., Dagblaðinu 11.
nóv.; Örnólfur Thorsson, Þjóðv. 5—6. des.), en hins vegar þrír sem álíta
verkið misheppnað, og af einhverjum ástæðum hafa þeir ritdómar einnig
litla greiningu á sögunni að geyma (Illugi Jökulsson, Tíminn 1. nóv.;
Jóhanna Kristjónsd., Mbl. 4. des.; Jón Viðar Jónsson, Helgarp. 6. nóv.;).
Það er í raun afar merkilegt að sumum ritdómurum virðist fyrirmunað að
veita þeim verkum sem þeim mislíkar gagngera bókmenntalega umfjöllun.
Eg mun hér einkum skoða þessa þrjá ritdóma.
Jóhanna kemur í byrjun ritdóms með þessa athugasemd, óneitanlega
kryddaða háði: „Kannski er gott fyrir unga höfunda að byrja með því að
skrifa dálítið vonda bók, þá verður að minnsta kosti enginn til að hafa uppi
óhóflegar kröfur við þá næstu.“ Ekkert er í sjálfu sér að setja út á þá skoðun
Jóhönnu að þetta sé „vond bók“, en nú vilja lesendur fá að vita ástæðuna.
Fyrst fá þeir að heyra að henni sé „fyrirmunað að sjá, um hvað hann er að
skrifa.“ Athyglisvert er að Illugi byrjar sinn ritdóm með svipuðum orðum:
„Eg játa hreinskilnislega . . . að ég botna ekki vel í þessari bók. Hvað er
höfundur að fara?“ Og Jón Viðar hefur svipað á boðstólum:
Nú má vera að sá sem hér heldur um pennann hafi ekki haft þolinmæði eða
löngun til að lesa rétt úr sögubrotum höfundar og að einhver stórmerkur
fróðleikur um íslenskt nútíðarmannlíf hafi þar með farið fyrir ofan garð og
neðan hjá honum.
Þessir þrír ritdómarar eru hér að beita einhverju elsta og leiðigjarnasta
ritbragði innan gagnrýninnar: þegar ritdómarinn játar í fullri hreinskilni
443