Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Page 46
Tímarit Máls og menningar
Við hefðum átt að komast fyrr að þeirri niðurstöðu að eitthvað
passaði ekki. Það er staðreynd að eitthvað passar ekki og hafi yfirleitt
nokkurn tíma eitthvað passað — ég efast um það — þá gerast nú
atburðir sem mig hryllir við. Milla frænka hafði alla tíð verið þekkt í
fjölskyldunni fyrir hvað henni þótti gaman að skreyta jólatréð.
Meinlaus en raunar sérstæður veikleiki sem er mjög útbreiddur í
föðurlandi okkar. Það var almennt brosað að þessum veikleika og
mótþróinn sem Franz alltfrá bernsku sýndi þessu „veseni“ olli mikilli
hneykslun, enda var Franz svo sem fremur óstýrilátt fyrirbæri. Hann
fékkst ekki til að taka þátt í því að skreyta tréð. Þetta gekk sinn gang
nokkurn veginn eðlilega lengi vel. Frænka mín var orðin vön því að
Franz kæmi hvergi nærri undirbúningnum á aðventunni og einnig að
hann skyldi ekki birtast fyrr en við matarborðið á sjálfri hátíðinni.
Það var ekki minnst á þetta lengur.
Jafnvel þó ég eigi á hættu að verða aftur óvinsæll verð ég að minna
á eina staðreynd. Henni til varnar get ég aðeins áréttað að hún var það í
raun og veru. Arin 1939 til 1945 var stríð. I stríði er sungið, skotið,
talað, barist, soltið og dáið — og sprengjum er varpað — allt fremur
ógeðfellt og það er alls ekki ætlun mín að valda samferðamönnum
mínum leiðindum með því að minnast á þetta. Eg neyðist til að geta
þessa, vegna þess að stríðið hafði áhrif á gang sögunnar sem ég ætla
að segja. I augum Millu frænku var stríðið aðeins afl sem ógnaði
jólatrénu — strax á jólum 1939. Að vísu var jólatréð hennar sérlega
viðkvæmt.
Aðalaðdráttaraflið á jólatré Millu frænku minnar voru glerdvergar,
sem héldu korkhömrum hátt á lofti og höfðu við fætur sér bjöllulaga
steðja. Undir iljum dverganna voru kerti og þegar ákveðnu hitastigi
var náð fór falinn vélabúnaður í gang. Þá fór ákafur órói um
handleggi dverganna, þeir börðu sem óðir með korkhömrunum á
bjöllulaga steðjana og framkölluðu þannig, tólf talsins, fíngerða,
álfkennda, klingjandi hljómkviðu. A topp grenitrésins var festur
silfurskrýddur engill með roða í vöngum sem opnaði munninn með
vissu millibili og hvíslaði: „Friður, friður.“ Ég áttaði mig ekki á hinu
tæknilega leyndarmáli engils þessa, sem var tryggilega gætt, fyrr en
síðar, enda þótt ég hefði þá næstum vikulega tækifæri til að dást að
því. Auk þess voru á jólatré frænku minnar sykurkringlur, sæta-
brauð, silfurþræðir, marsípanfígúrur og — því má ekki gleyma —