Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Blaðsíða 89
Kvennamál og kvennamenning
ur“6 og kvenhöfundar sakna formæðra, þrá fyrirmyndir en óttast þær ekki.
Barátta kvenna í bókmenntasögunni er „ekki barátta gegn því hvernig
karlkyns forverar þeirra túlkuðu heiminn, heldur því hvernig þeir túlkuðu
þær“ (49). I þeirri baráttu urðu konur að endurskoða karlabókmenntirnar,
rangtúlka þær, flýja þær til að skapa olnbogarúm fyrir sjálfar sig.
A 19. öldinni mælti fjöldamargt gegn því að konur legðu á þennan bratta.
Margar gerðu það þó. Karlahefðin var sterk og innri og ytri mótstaða mikil.
Ef konur vildu skrifa, án þess að vera hafðar að háði og spotti eða sæta
ofsóknum og árásum, þá gátu þær valið einhvern eftirfarandi kosta: Þær
gátu skrifað undir karlmannsnafni, tekið á sig karlmannsgerfi — og það
gerðu margar. Þær gátu beðið linnulítillar afsökunar á bókmenntum sínum,
niðurlægt þær og undirstrikað sjálfar að ekki væru þetta nú merkilegir textar
né ætlað mikið hlutverk. Eða þær gátu skrifað bókmenntir sem fólu í sér
þeirra eigin sannleika — en fólu hann vel.
Bókmenntum hinna miklu skáldkvenna á 19. öldinni er hægt að lýsa með
myndmáli úr handritafræðum. „Palimpsest" er skinnhandrit sem er tvískrif-
að, texti hefur verið skafinn burt til að hægt sé að skrifa nýjan. Með sérstakri
tækni má þó kalla fram undirtextann. Þannig voru mikilvægustu bókmenntir
kvenna á 19. öldinni (og þeirri 20. líka) segja Gilbert og Gubar (75). Með því
að greina bókmenntir helstu kvenskálda Engilsaxa á 19. öldinni, lesa þær úr
verkunum ákveðna undirtexta, ákveðinn boðskap, reiði, falda uppreisn
gegn kúgun á konum jafnt í þjóðfélagi sem í bókmenntahefðinni.7 Þær
benda á að konur á 19. öld voru lokaðar inni, bæði í eiginlegri og óeiginlegri
merkingu, og í bókmenntum þeirra er ágengt myndmál sem lýsir innilokun,
flótta, ótta við innilokun (claustrophobia) og andstæðu hans — ótta við
víðáttu, opin svæði (agoraphobia). Vanlíðan er lýst og veikindum, sjúkdóm-
um sem orsakast af andlegum vandamálum og eru í raun sjálfstortímandi
uppreisn. En algengast og mikilvægast er þó uppgjör kvennanna við engils-
ófreskju kvengerðirnar úr karlabókunum.
Ófreskjan, illa og brjálaða konan, er forsenda engilsins í kvennabók-
menntunum og oft er hún eins konar tvífari hans. Ófreskjan er skapandi
kona, hún segir sögur, hún er „plotter". Henni farnast ekki vel, en hún
hefur áhrif á líf engilsins.
Þetta mynstur er skýrt í frægri sögu Charlotte Bronte,Jane Eyre. Jane er
barnfóstra hjá hefðarmanninum Rochester og verður að taka á honum stóra
sínum til að bæla tilfinningar sínar og sjálfstæðisþrá í vistinni. Brjálaða
konan er kona Rochester, lokuð inni í kvistherbergi hússins. Hún er mikil
kynvera, hættuleg, slæg og reið. Þegar þær Jane mætast verða hvörf í lífi
Jane, hún tekur ákvarðanir um framtíð sína, fer sína leið til sjálfstæðis og
frelsis.
79