Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Blaðsíða 108
Tímarit Máls og menningar
hún átti þátt í að halda ofbeldi í skefjum og hún gaf metnaðargjörnum
einstaklingum tækifæri til að auðgast og láta að sér kveða.
Umbob og fréttaflutningur
Þegar milliganga fer þannig fram að einhver fer með mál annars í umboði
hans er það niðurstaða samninga þar sem stuðningur er keyptur eða fenginn
með öðrum hætti. Þegar valdamiklir menn í héraði tóku við málum breyttist
smávægileg deila milli bænda oft í meiri háttar átök þar sem milligöngu-
menn þurftu að styðjast við net sambanda og skuldbindinga til að fá fram
æskilega lausn. Oft voru umboðsmenn þess megnugir að veita aðstoð vegna
þess að þeir voru lögfróðir eða af því að þeir áttu ríka ættingja eða aðra
bandamenn. Astæður manna til að taka að sér mál voru margvíslegar, allt frá
ágirnd til hefndarþorsta, þótt stöku sinnum bregði einnig fyrir göfug-
mennsku. Tilefni deilumála gat verið margvíslegt. Menn deildu um heiður,
girndarráð eða eignir. En framvinda mála, hvernig þau mögnuðust eða voru
leyst5 fór mjög eftir afskiptum umboðsmanna, og þeir eru meðal eftir-
minnilegustu persóna í sögunum. Snorri goði var td. slyngur milligöngu-
maður, sem nærri alltaf tókst að snúa málum sér í hag. Aðrir milligöngu-
menn — Njáll, Helgi Droplaugarson, Þórður gellir, Mörður Valgarðsson,
Guðmundur dýri, Sámur Bjarnason — tóku að sér mál, flæktu þau eða
leystu. Án þeirra væru sögurnar allt öðru vísi.
Þeir sem þurftu á hjálp að halda gátu ekki alltaf treyst sínum eigin goða og
urðu að leita til annarra. Stundum þurfti að ganga fyrir marga umboðsmenn
áður en tókst að finna nokkurn sem bæði var fús til og fær um að taka málið
að sér eða veita lið. Kalla má að slíkar umleitanir séu fastur liður í
frásögnum af minniháttar deilumálum, einatt býsna nákvæmar. Sem dæmi
má taka frásögn Eyrbyggju af því er Þorgerður ekkja Vigfúsar í Drápuhlíð
reið milli höfðingja á Snæfellsnesi til að fá þá til að taka að sér eftirmál eftir
mann hennar. Milligöngumenn heimtuðu einatt umbun til að vega á móti
þeirri hættu sem þeir lögðu sig í. Borgun gat verið í landeignum, lausafé eða
öðrum verðmætum, en þegar til lengdar lét hefur mestu varðað að stofna til
nýrra bandalaga við einstaklinga eða ættir.
Kvaðir eru lykillinn að umboðsfyrirkomulagi. Af þeim sökum er ættar-
tengslum manna lýst í sögunum, annaðhvort áður en deilumál hefjast eða
meðan þau standa yfir. Með ættartengslum má flokka kvaðir sem myndast
hafa við barnfóstur, með tengdum eða fóstbræðralagi. Bandalög út fyrir
ættina var hægt að mynda með veislum eða gjöfum vegna þess að sá sem þá
veislur eða gjafir varð skuldbundinn gefandanum. I 48. vísu Hávamála er
lýst viðhorfi þess sem verður skuldbundinn öðrum: „Sýtir æ glöggr við
gjöfum."
98