Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Síða 73
Carolyn Forché
Ofurstinn
(Ur ljóðaflokknum In Salvador)
Það sem þú hefur heyrt er satt. Ég var heima hjá honum. Konan hans bar
inn bakka með kaffi og sykri. Dóttir hans svarf á sér neglurnar, sonurinn
fór út að skemmta sér. Þarna voru dagblöð, gæluhundar, skammbyssa á
púðanum við hlið hans. Máninn sveiflaðist nakinn á svörtum þræði
sínum yfir húsinu. I sjónvarpinu var lögguþáttur. Hann var á ensku.
Brotnar flöskur voru festar á múrinn umhverfis húsið til að sneiða
hnéskeljar af fótleggjum manns eða klippa hendurnar í kögur. Fyrir
gluggum voru rimlagrindur eins og í vínbúðum. Við snæddum kvöld-
verð, lambahrygg, gott vín, gullbjalla var á borðinu til að hringja eftir
þjónustu. Þjónustustúlkan kom með græn mangóaldin, salt, einhvers
konar brauð. Ég var spurð hvort ég kynni ekki vel við landið. Það kom
stutt auglýsing á spænsku. Konan hans bar allt fram. Því næst var dálítið
rætt um hversu erfitt væri orðið að stjórna. Páfagaukurinn sagði halló á
veröndinni. Ofurstinn skipaði honum að þegja, og ýtti sér frá borðinu.
Vinur minn sagði mér með augunum: segðu ekkert. Ofurstinn kom inn
aftur, hann hélt á innkaupatösku. Hann hvolfdi mörgum mannseyrum á
borðið. Þau voru eins og þurrkaðar ferskjur. Það er ekki hægt að segja
þetta öðruvísi. Hann tók eitt þeirra í hönd sér, skók það framan í okkur,
lét það detta í vatnsglas. Þar færðist líf í það. Ég er orðinn þreyttur á að
vera með látalæti, sagði hann. Varðandi réttindi manna skaltu segja þínu
fólki að það geti farið í rassgat. Hann sópaði eyrunum niður á gólf með
handleggnum og hóf dreggjarnar af víni sínu á loft. Eitthvað fyrir ljóðin
þín, ha? sagði hann. Sum eyrun á gólfinu gripu þetta snifsi úr máli hans.
Sum eyrun á gólfinu þrýstust að jörðinni.
Ástráður Eysteinsson þýddi
63