Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Side 86
Tímarit Máls og menningar
eitthvert annað. Oft brýst djúpstæður ótti karla við hið kvenlega fram í
lýsingum þeirra á ófreskjunum. Ófreskjurnar í bókmenntum karla eru
virkar, þær eru hryllilegar karlkonur. Þær kunna að vera snoppufríðar og
villa á sér heimildir en fyrr eða síðar afhjúpa þær sinn illa vilja. Gilbert og
Gubar nefna mörg dæmi um hvernig þessar hættulegu konur eða kvengerf-
ingar eru tengdar óttablöndnum hryllingi á kynferði og kynfærum kvenna
sem kemur fram bæði í myndlist og í myndmáli í bókmenntum; ófreskjurn-
ar eru fagrar fyrir ofan mitti en skepnur fyrir neðan, talað er af viðbjóði um
blóð, slím, skít, hyldýpi, kaos. Ófreskjurnar eru haldnar af óseðjandi
líkamlegri græðgi, skorti á siðgæðisvitund og valdafýsn. Þær eru slægar,
virkar og skapandi, enda svífast þær einskis til að ná valdi yfir karlmannin-
um og stela frá honum skapandi krafti hans.
Simone de Beauvoir sagði að karlmenn yfirfærðu skelfingu sína og ótta
við líkamlegar takmarkanir sínar — vanmátt sinn frammi fyrir fæðingu,
sjúkdómum og dauða, — yfir á konur, kvenkynið. Og Gilbert og Gubar
vitna í sálgreinendurna Karen Horney og Dorothy Dinnerstein (Melanie
Klein mætti bæta við) um að tvöfeldni karla í viðhorfum til kvenna eigi
rætur í bældum ótta við frummóðurina og vald hennar (34). Hebreska sagan
af Lilith, fyrri konu Adams, er magnað dæmi um hina fyrstu ófreskju,
uppreisn hennar og þunga refsingu.4
Gilbert og Gubar draga síðan þá ályktun að listakonur á 19. öld hafi varla
getað samsamað sig þessum tveimur meginkvengerðum, engli-ófreskju, sem
bókmenntahefðin hélt að þeim. Engillinn, góða konan, hefur ekkert sjálf, er
óvirk með öllu og getur ekki skapað. Ófreskjan, vonda konan, er svo
hryllileg að enginn getur gert hana að sjálfsmynd sinni og virkni hennar er
háð slíkum afarkostum, svo grimmilega refsað að það skýtur bæði körlum
og konum skelk í bringu.
Til að geta skrifað urðu konur að ganga á hólm við engils-ófreskju
kvenmyndirnar. Áður en þær gátu búið sér til sjálfsmynd sem skapandi
listamenn og sagt: „Hér er ÉG“ urðu þær að spyrja: „Hver er ÉG?“ Þetta
þurfa raunar allir skapandi listamenn, karlar og konur, að gera, segja Gilbert
og Gubar. „En fyrir kvenkyns listamann er þessi mikilvæga sjálfsskil-
greining mun flóknari (en fyrir karla) vegna allra þeirra skilgreininga
feðraveldisins sem troða sér á milli sjálfsskilnings hennar og skilningsins á
henni.“ (17)
Feðitr og synir — ekki mæður og dætur
I öðrum og mikilvægasta hluta inngangsins koma Gilbert og Gubar fram
með róttækustu hugmyndir sínar og setja þær í samhengi við kenningar um
76