Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Side 125
Mótun nýja Kína
Þessi nýjasta tilraun, sem Kínverjar segja sjálfir að hafi það markmið að
byggja upp „sósíalisma með kínverskum séreinkennum," er að mörgu leyti
frábrugðin fyrri tilraunum. Leiðtogar kommúnista hafa sýnt að þeir hafa
lært af reynslunni. I stað þess að steypa öllu þjóðfélaginu í einni svipan út í
tilraun, sem ekki var víst hvernig tækist, fóru þeir rólega af stað og byrjuðu
á takmörkuðum breytingum á völdum svæðum.
Deng Xiaoping, sem var orðinn valdamesti leiðtogi Kínverja árið 1978,
beitti sér fyrir því að bændur fengju leyfi til að semja við samyrkjubúin um
ræktun ákveðinna landskika. Landið var áfram í eigu samyrkjubúanna en
bændur gerðu verktakasamninga um að rækta korn, mat- eða nytjajurtir, ala
upp svín eða alifugla o. s. frv. Samningarnir fólu í sér ákvæði um að bændur
skyldu selja ákveðið magn af afurðum sínum til ríkisins á fastákveðnu verði
en þeir höfðu leyfi til að selja umframframleiðslu sína sjálfir á frjálsum
markaði. Smám saman hefur svo hlutur markaðarins verið aukinn og
söluskylda bændanna til ríkisins verið minnkuð.
Eftir að breytingarnar á framleiðsluskipulagi sveitanna voru komnar vel á
veg var hafist handa við hliðstæðar breytingar í iðnaði og verslun og
viðskiptum. Ríkisfyrirtæki hafa fengið aukið sjálfstæði, smáfyrirtæki í eigu
samvinnufélaga og einstaklinga blómstra og í stað jafnlaunakerfis hefur
verið tekinn upp afkastahvetjandi bónus. Starfsmenn lítilla ríkisfyrirtækja
hafa algjörlega tekið við rekstri þeirra eins og um samvinnufyrirtæki væri að
ræða og flest stærri ríkisfyrirtæki afhenda nú ekki lengur ríkinu allar tekjur
sínar gegn því að ríkið greiði rekstrarkostnað heldur greiða þau skatt af
hagnaði, fasteignum og veltu eins og einkafyrirtæki.
Eins og í Stóra stökkinu og Menningarbyltingunni er markmiðið með
þessum breytingum að virkja frumkvæði almennings og draga úr þunglama-
legu skrifræði. En aðferðirnar eru allt aðrar. I stað þess að treysta á pólitísk
vígorð til að hvetja fólk til að leggja sig fram við framleiðsluna er hagnaðar-
vonin notuð og framboð og eftirspurn eru talin mikilvægari hagstjórnartæki
en ríkistilskipanir.
Þessi nýjasta þjóðfélagstilraun Kínverja hefur skilað mun betri árangri á
sviði efnahagsmála en fyrri tilraunir þeirra og flest bendir til þess að áhrif
hennar verði varanlegri. A árunum 1979 til 1985 jókst landbúnaðarfram-
leiðsla Kínverja að meðaltali um 9,3% á ári sem er meiri aukning en á
nokkru öðru samsvarandi tímabili. Aukin sérhæfing bænda hefur leitt til
þess að mun stærri hluti landbúnaðarframleiðslunnar fer á markað sem
sýnir að kínverskur landbúnaður er að breytast úr sjálfsþurftarbúskap í
markaðsbúskap. A þessum tíma jukust rauntekjur bænda að meðaltali um
15% á ári og tekjur á hverja fjölskyldu í borgunum jukust um 8,2%.
115