Tímarit Máls og menningar - 01.09.1999, Síða 51
Harold Pinter
Stúlkur
Ég las í tímariti smásögu um stúlku í háskóla sem fer inn á skrifstofu
kennara síns, sest við skrifborðið hans og réttir honum miða sem hann
flettir í sundur og á stendur: „Stúlkur vilja láta flengja sig.“ En ég er bú-
inn að týna því. Ég er búinn að týna tímaritinu. Ég fínn það hvergi. Og
ég man ekki hvað gerist næst. Ég veit ekki einu sinni hvort þetta var
skáldskapur eða sönn saga. Kannski var þetta brot úr sjálfsævisögu. En
frá hvaða sjónarhorni var sagan sögð? Kennarans eða stúlkunnar? Ég
veit það ekki. Ég man það ekki. Og það er óbærilegt að finna myrkur
vanþekkingarinnar umlykja sig með þessum hætti. Það sem mig
langar að vita er ósköp einfalt. Var hún flengd? Það er að segja ef hin
víðfeðma fullyrðing átti við um hana sjálfa. Ef hin víðfeðma fullyrðing
átti við um hana sjálfa naut hún þá sjálf góðs af henni? Var hún, hreint
út sagt, ein af þessum stúlkum? Var hún eða er hún ein af þeim stúlk-
um sem, að því er hún segir sjálf, vilja láta flengja sig? Ef sú var raunin,
gerðist það þá? Gerðist það á skrifstofu kennarans, á skrifborði kenn-
arans? Eða ekki? Og hvað með kennarann? Hvað fannst honum um
þetta? Hvers konar kennari var hann eiginlega? Hvað kenndi hann?
Gaumgæfði hann staðhæfinguna (stúlkur vilja láta flengja sig) með
gagnrýnu hugarfari? Þótti honum þetta hæpin alhæfing eða reyndi
hann í það minnsta að sannprófa hana? Með öðrum orðum, prófaði
hann hana? Með öðrum orðum, sagði hann sem svo: „Allt í lagi.
Leggstu á skrifborðið með bossann upp, snúðu þér undan og við
skulum bæði dæma um hvort þessi staðhæfing fær staðist eða ekki“?
Eða lét hann sér nægja að áminna nemandann, í þágu vísindanna, um
að fara framvegis með gát um hið viðsjárverða svæði staðhæfinganna?
Verst er að finna hvergi tímaritið. Ég er búinn að týna því. Og ég
hef ekki hugmynd um hvernig sögunni, eða ævisögubrotinu, lykt-
aði. Urðu þau ástfangin? Giftust þau? Eignuðust þau heilt stóð af
krökkum?
TMM 1999:3
www.mm.is
49