Skáldskaparmál - 01.01.1990, Qupperneq 42
40
Örnólfur Thorsson
spurningin: hvers vegna var þessi frásögn felld inn í Hávarðar sögu? Ég hygg að
svarið við þeirri spurningu tengist bókmenntalegri túlkun hennar. Með
nokkrum hætti má kalla þessa sögu tilraun um hetju. Ólíklegar persónur eru
reyndar í hlutverki hetjunnar: unglingspiltur sem einna helst vinnur sér það til
dáða að vera duglegur við eftirleitir og kveður tvisvar í kútinn sama drauginn;17
móðir hans á miðjum aldri sem skipuleggur hefndir í þaula; gamall faðir hans,
fyrrverandi hetja einsog Halldór Guðmundsson kemst að orði í grein sinni í
þessu riti, sem liggur þrjú ár í kör áður hann verður ungur í annað sinn og hefn-
ir sonar síns; aurapúkinn Atli í Otradal sem verður að manni undir sænginni hjá
konu sinni; og loks börnin sem vinna á Ljóti og eru tekin í þessa einkennilegu
sveit eftir það afrek. Frásögnin um piltana tvo sem leggja að velli mikinn kappa
er með öðrum orðum eitt tilbrigðið í tilrauninni um hetjuna.
Hið sama er uppi á teningnum þegar Landnáma vísar til sögu Hávarðar og
Þorbjarnar: sú frásögn þarf ekki að hafa verið rituð heimild Sturlu eða samstæð
munnleg frásögn. Guðni Jónsson og Jón Jóhannesson telja að misræmi Land-
námu og varðveittrar gerðar af Hávarðar sögu stafi af því að sagnaritarinn hafi
heyrt söguna eða lesið einhvern tíma og skrifað hana síðan eftir minni.18 Mér
virðist miklu nærtækara að gera ráð fyrir því að varðveisla hennar sé vísbending
um aldur: hún sé ung, jafnvel ekki eldri en frá 15. öld eða fyrri hluta þeirrar
sextándu.
Sagan sjálf er alls ekki fornleg, einsog Halldór Guðmundsson víkur að, þótt
glöggt megi sjá að höfundur hennar hefur verið víðlesinn í öðrum Islendinga
sögum: hann beitir mörgum alþekktum brögðum fornrar frásagnarlistar s.s.
þrítekningu, stigmögnun atburða og hliðstæðum, sviðsskiptum, draugagangi og
forneskju, deilum um dauðan hval, o.s.frv.19 En hann er fyrst og fremst að
skemmta áheyrendum sínum og lesendum með sögu þar sem veröldinni er snú-
ið á haus: smælingjar verða hetjur og herja á stórmenni með nokkrum árangri,
gamlir menn hefna hinna ungu, börnin sigra víkinga.
Eftir þennan útúrdúr um Hávarðar sögu ætla ég að víkja talinu aftur að Birni
M. Ólsen. Sögurnar voru engin sagnfræði í augum hans heldur verk skapandi
rithöfunda með mikinn listrænan metnað: raunar einstæðra snillinga:
Því betur sem vjer lesum sögur vorar ofan í kjölinn, því dípra sem vjer sökkvum oss
ofan í þær, því nákvæmar sem vjer rannsökum þær, því betur munum vjer komast að
raun um, að þær eru listaverk, og að listamaður hefur haldið á pennanum, sem festi
þær á bókfell, og að á bak við þær liggur ekki ein samhangandi munnleg saga, heldur
fjöldinn allur af einstökum munnmælasögum, sem höfundur sögunnar hefur safnað
saman og vinsað úr og reint að gera úr eina heild. Stundum liggja líka skriflegar
heimildir á bak við sögurnar.
(Björn M. Ólsen 1937-39, 11)
Þessi skilningur á uppruna sagnanna hefur verið lífseigur í röðum íslenskra
fræðimanna, einkum þó hinna eldri lima íslenska skólans. Munnmæli eru