Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 148
146
TorfiH. Tulinius
Vatnsdœla saga ættarsaga, þar sem hún greinir frá mörgum ættliðum Hofverja
og forfeðra þeirra á Norðurlöndum, Grettis saga er ævisaga, þar sem hún
greinir frá lífshlaupi Grettis Ásmundssonar, en Brennu-Njáls saga er saga um
flókna keðju atburða, en hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd. Þá mætti segja að
Grettis saga ætti ýmislegt sameiginlegt með fornaldarsögu eins og Orvar-Odds
sögu og jafnvel biskupasögu eins og Þorláks sögu helga, þar sem allar þessar
sögur greina frá lífshlaupi einnar persónu, en það gerir Njála til dæmis ekki.
Eins mætti líta á Völsunga sögu sem ættarsögu, svipaða Vatnsdælu, en það er t.d.
Hrafnkels saga ekki. Göngu-Hrólfs saga greinir frá ákaflega flókinni atburða-
rás. Mætti þá ekki leiða rökum að því að hún eigi ýmislegt sameiginlegt með
Njálu, sem aðrar sögur eiga ekki?
Allir sjá að engan veginn er hægt að halda því fram að áðurtaldar sögur eigi
nokkuð annað sameiginlegt en þessa ytri byggingu. Samt sem áður er gagnlegt
að skoða byggingu sagnanna, þó ekki væri nema til þess að sjá hvað sagna-
ritararnir réðu yfir mörgum aðferðum til að koma skipulagi á efni sitt. Einnig
hefur þessi formgerðarviðleitni leitt ýmislegt í ljós að því er varðar innri bygg-
ingarþætti sagnanna, og skal þá m.a. nefna rannsóknir Theodores Anderssons
á hefndarmynstrinu í Islendingasögunum9, og athuganir Jesse Byocks á ýmis
konar félagslegum mynstrum í þeim og tilraunir hans til að tengja þessi mynst-
ur við sögulegan veruleika þjóðveldisaldar10. Vissulega benda niðurstöður
þeirra til þess að Islendingasögur hafi ákveðin formgerðareinkenni sem greina
þær frá öðrum sögum, en tengja þær við samtíma þeirra. Því má ekki gleyma
þeim þegar leitast er við að flokka sögurnar.
Ég hef nú rakið nokkrar aðferðir við að flokka fornar sögur okkar, og hefur
hver þeirra galla, en einnig kosti, eins og ég hef bent á, því hver þeirra leiðir í
ljós ákveðin einkenni fornsagnanna og sýnir greinarmun á þeim, sem hinar gera
ekki. Eitt atriði tel ég þó að þessar flokkunaraðferðir vanræki, en það er að gera
grein fyrir því hver tengsl sagnaflokkanna eru, eða með öðrum orðum á hvern
hátt hinar ólíku greinar fornsagna vinna saman í einu kerfi, sem kalla mætti
bókmenntakerfi.
Hvað á ég við með hugtakinu bókmenntakerfi? Ég á við kerfi sem líkja
mætti við málkerfið þar sem hver eining í kerfinu fær merkingu af afstöðu sinni
til hinna eininganna og vísa ég þá til kenninga Saussures um merkingarmyndun
í tungumálum. Bókmenntakerfi er þá kerfi þar sem hver bókmenntagrein fær
merkingu af afstöðu sinni til hinna greinanna.
Til að skilja þetta er best að skoða það í ljósi boðskiptafræða. Alla orðræðu
má líta á sem boð frá sendanda til viðtakanda. Ákveðnir þættir boðanna gegna
einungis því hlutverki að stýra túlkun viðtakandans á innihaldi þeirra. Einfalt
dæmi um þetta er það sem gerist þegar einhver segir brandara. Hann setur upp
kímnisvip, dregur svolítið seiminn, og gefur þannig áheyrendum sínum til
kynna að nú fari brandarinn að koma. Brandarinn hljómar og allir fara að hlæja
... þ.e. ef brandarinn er góður.