Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 108
106
Guðmundur Andri Thorsson
gerist það þrennt sem allt kemur senn að svinnum: „Það fyrst að faðir hans var
andaður, annað það að bróðir hans var veginn, það þriðja að hann var sekur ger
um allt landið" (bls.1023). Höfundur leggur áherslu á æðruleysi Grettis gagn-
vart þessum tíðindum og leggur beint út í undarlegan gamanþátt sem má kenna
við hryssuna Söðulkollu, og er ekki annað en lítið dulbúinn vísnaþáttur með
miklum munnlegum einkennum.
Kaflar 47-83 greina síðan frá útlegð Grettis og er þetta fyrirferðarmesti hluti
bókarinnar, sá hluti sem ætla má að flestar lausasagnir hafi flykkst í, samanber
Söðulkolluþátt. Meginþemað um gæfuleysið er hér oft baklægt, það er gefið,
óþarfi að staglast á því - en það sem verra er: það gleymist á einum stað þegar
Grettir fer að fljúgast á við forynjur að næturlagi og gengur vel.7 Megin-
straumur bókarinnar tekur nú smám saman að þrengjast, ógæfa Grettis dýpkar
hægan, sagan stefnir rólega að sínum óumflýjanlega ósi. Orð Theodors M.
Anderssons - „a thickening atmosphere of doom“8 - eiga hér vel við. Grettir
þvælist á milli manna og enginn treystist til að taka við honum, tilfinning
lesanda fyrir bölvun hans eykst sífellt: hann á ekki afturkvæmt í samfélag
manna, þarna er endanleg gjá á milli, hann er ekki einungis útlagi að lögum,
hann er ekki í húsum hæfur nema rétt um stundarsakir til að losa bændur við
aðrar plágur en sjálfan sig. Hann mun aldrei geta snúið aftur. Grettir þrammar
myrkfælinn en hugrakkur sinn vítahring sem er um leið að verða vítahringur
frásagnarinnar. Andstæðingar senda flugumenn til að drepa hann aftur og aftur
og allt fer ævinlega á sömu lund: hann drepur þá. Hrekst svo út í Drangey,
syndir af og til í land til að sprella, en er í raun kominn út í horn. Sagan er að
þróast út í þrátefli þegar fóstrunni er loks teflt fram. Grettir er fastur og kemst
ekkert áfram - mótstöðumennirnir komast ekkert áfram heldur; það er aðeins
eitt afl sem mun sigra hann, forneskjan, hvort sem fulltrúi hennar er draugur
eða afgömul norn.
Allir þessir fimm þættir enda á risi. Allir byrja í lægð. I þeim er stígandi,
ákveðin röð tengdra atvika, og allir enda þeir á útlegð Grettis - sú útlegð verður
sífellt megnari og er endanleg að lokum. Sagan er bundin saman með hlið-
stæðum milli 2. og 4. hluta og þess 3. og 5. - Grettir lendir í ámóta aðstæðum
sem leika hann verr þegar á líður.
Þessi greining á byggingu meginsögunnar af Gretti dregur fram mynd hans í
samfélaginu, hve úreltur vígamaðurinn er orðinn á tímum þegar samfélagið er
tekið að starfa eftir ákveðnum lögum og er stýrt af mönnum sem eru naskir að
leggja undir sig fé og jarðir í krafti fjár og jarða, en ekki þeim sem vaskastir eru
og mestir garpar. Víkingar eiga heima í víkingu. Þessi greining miðast sem sé við
Gretti í mannheimum. En hann kemur víðar við en þar. Sagan fjallar aðeins að
hálfu leyti um Gretti andspænis lögum samfélagsins og árekstra ólíkra siða-