Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 98
96
Baldur Hafstað
Tryggð sína við minningu Ólafs sýnir Sighvatur einnig í því að hann styður
Magnús son hans til hásætis og gerist ráðgjafi hans og skáld. Og það var einmitt
Sighvatur sem fenginn var til að vanda um við konung þegar þegnum hans þótti
ofsi hans ætla að keyra úr hófi; þá orti Sighvatur hinar kunnu Bersöglisvísur.
Varla leikur á því vafi að örlög þeirra konungsmanna sem Ólafs saga og
Magnúss saga góða greina frá og hér voru nefnd hafa verið Snorra hugleikin.
Ekkert mælir gegn því að þeir hafi tekið á sig nýja og örlítið hvassari mynd í
Egils sögu þar sem þróunin var skýrari og augljósari: frá blindum konungs-
manni til sjáandi og sjálfstæðs hirðmanns sem gat verið vinur vina sinna. Sé
Egils sögu markaður staður á síðustu árum Snorra verður þetta skiljanlegt. Þá
er Snorri sjálfur búinn að kynnast björtum og dökkum hliðum konungshirðar-
innar. Hann hefur látið heillast af hirðlífinu í sinni fyrstu utanferð. Hann yrkir
til konungs og jarls og gengur á mála. Sumum löndum hans hefur jafnvel þótt
nóg um eins og sést á því hvernig þeir sneru út úr kveðskap hans um Skúla
(Sturlunga, ísl. saga, 46. vísa). Smátt og smátt hefur ljóminn farið af þessu lífi og
Snorri gert sér ljóst hve fáu var þar að treysta, hvernig konungur atti mönnum
saman eftir hentugleikum og sást ekki fyrir. Þá hefur honum orðið ætt
Kveldúlfs hugstæð og varnaðarorð gömlu mannanna. „Fox er illt í exi,“ sagði
Skallagrímur um gjöf Eiríks blóðaxar (Egils s., bls. 413).
Kveldúlfur var jafnan á varðbergi gagnvart konungum. Hann vildi ekki
ánetjast þeim eða láta syni sína gera það, og ekki vildi hann blanda sér í valda-
brölt þeirra. Kveldúlfur er fyrsti „Islendingurinn" sem gerir sér ljósa ógnina af
Noregskonungum (Einar Þveræingur er að vísu eldri ef miðað er við ritunar-
tíma sagna). Að þessum staðfasta ættföður dáðist Snorri. Vissulega dáðist hann
einnig að þeim einstaklingum í ætt Kveldúlfs sem heillast létu af konungs-
ljómanum, Þórólfunum báðum. En beisk var beggja reynsla af honum, einkum
þó hins eldri Þórólfs. „Þíðan“ sem ungu mennirnir, Eiríkur blóðöx og Þórólfur
yngri, trúðu á stóð skamma stund. Niðurstaða Snorra er sú að konungum
Noregs verði ekki treyst. Það sést hvað skýrast á því að konungur kemur í veg
fyrir að réttmætar kröfur Egils um eignarhald á jörðum í Noregi nái fram að
ganga fyrir dómstólum. Egill er að því leyti trúr föður sínum og afa að hann
virðist frá upphafi vantrúaður á traust samband við Noregskonunga, virðist
reyndar eins og Kveldúlfur hvorki vilja vera vinur þeirra né óvinur. En hirð-
löngun sinni gat hann fullnægt með því að kveða um Englakonunga, og þannig
sameinað það að vera sjálfstæður Islendingur og hirðmaður í útlöndum.
I blámóðu sá Snorri Sturluson hina gömlu tíma, þar sem konungar Noregs
voru þrátt fyrir allt varla mikið meira en jafningjar stórhöfðingja og ógnuðu
ekki íslendingum. Á 13. öldinni fór konungsveldi vaxandi, og skánandi ástand
innanríkismála gerði að verkum að Skúli jarl og Hákon konungur fóru ásamt
erkibiskupum að ráðskast með íslenska höfðingja. Við finnum hvernig tónninn
breytist í garð Noregskonunga frá Heimskringlu til Egils sögu. En það var
reyndar hinn innri veikleiki íslendinga sem varð þeim skeinuhættastur: sam-
stöðuleysið; það að vera ekki vinir.