Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 193
Klifstig Islendingasagna
191
mun hærra sem klifstig þess eða „klisjustig" er, þeim mun meiri líkur eru á að
hugmyndafræðilegur mælikvarði verði lagður á það fremur en listrænn.
Þjóðsögur hafa löngum verið álitnar takmarkaðar sem listaverk, og ævintýri
sem eiga sér engan nafngreindan höfund, hafa umfram allt verið skoðuð sem
afurð samfélags og ekki sem sönn list. Og sama gildir um teiknimyndasögur.
Klisjukennd verk eru álitin miðla þekkingu í takmörkuðum mæli, slík verk eru
varla talin verðugt viðfangsefni fyrir mannshugann að glíma við og skilja,
heldur notuð sem heimild um eitthvað annað og þá stundum heimsku höf-
undarins. Fyrrgreinda reglu mætti í stuttu máli orða svo: Við hátt klifstig texta
hneigist bókmenntagreining á honum til að verða að hugmyndafræðigreiningu.
Hvers vegna hafa menn tilhneigingu til að telja fyrirsegjanleg listaverk vond?
Ef til vill tengist það því að skoðandinn hneigist til að halda að sjálfur sé hann
ekki klisjukenndur, heldur djúpur og óútreiknanlegur.
Annað sálfræðilegt atriði sem hér kemur við sögu er að mönnum finnst oft að
það sem þeir skilja og það sem er auðskilið sé ákaflega ómerkilegt. Þegar við
höfum einu sinni gert okkur grein fyrir hinum einföldu leikreglum í James
Bond-sögunum, þá finnast okkur þær nauðaómerkilegar og ef til vill líka leiðin-
legar. Það getur með öðrum orðum spillt hinni listrænu nautn neytandans að
skilja hvernig verkið er saman sett, svo óskynsamlegt sem það þó virðist vera.
Sumum finnst ekkert mæla eins gegn listaverki og ef hugsast gæti að þeir
hefðu búið það til sjálfir. Hér eru atómljóð ágætt dæmi, því oft heyrist sagt
eitthvað á þessa leið: Þetta er svo lélegt kvæði að ég hefði meira að segja getað
samið það sjálfur. Eftir þessum sólarmerkjum að dæma getur aðeins hið
óskiljanlega talist merkilegt, þegar öllu er á botninn hvolft. En svo aftur sé
komið að meginefninu: I framansögðu felst að menn spyrða oft saman listgildi
og upplýsingagildi. Það sem mönnum finnst fyrirsegjanlegt finnst þeim ljótt,
sem fyrr sagði. Það viðhorf kristallast í orðum rússneska táknfræðingsins Júrí
Lotmans: „Upplýsingar eru fegurð“ (Eagleton, 101, Lotman, 167).
Eftir því sem frá líður myndast samkvæði um hvernig skoða beri atburði og
verk liðinnar tíðar. Þess vegna er alltaf auðveldara að skilja fortíð en samtíð.
Smátt og smátt síast úr það sem er talið ómerkilegt í fortíðinni og myndin af
fortíðinni verður smám saman að klisju - umfram allt þó í augum þess, sem
ekki hirðir um að kanna hana. Samtíðin er aftur á móti formleysa, kaos og
skrímsli sem enginn botnar í, finnst mönnum. Og mætti því segja: Samtíð
skoðandans er flókin, djúp og óútreiknanleg eins og hann sjálfur. - Samtíðin er
kannski í eðli sínu óskiljanleg.
Júrí Lotman hefur sagt frá rannsókn á fyrirsegjanleika í máli. Rannsóknin
leiddi í ljós að tiltölulega erfitt reyndist að geta sér til um rímorð, þvert á móti
því sem menn hefðu ímyndað sér. Lotman gerði líka sjálfur dálitla könnun á
fyrirsegjanleika í ljóðum. Niðurstaða hans var að finnist einhverjum kvæði
gott, þá á hann erfitt með að giska á framhald þess. Næsta orð kemur mann-
inum með öðrum orðum á óvart (Lotman, 176). Af því má ef til vill álykta að
hið fyrirsjáanlega þyki ekki fagurt. Lotman hugsar sér ákveðna meginreglu,