Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 160
158
Matthew James Driscoll
svo og aðrar romans courtoise. Strengleikar, sem samanstanda af 21 söguljóði
(lais á frönsku), eru einnig af þessum toga. Karlamagnús saga er dálítið sér á
parti vegna söguefnisins, en hún er einnig saman sett úr nokkrum sjálfstæðum
sögum sem allar eru franskar að uppruna. Annað þýtt efni sem tengist riddara-
sögunum er t.d. Þiðreks saga, safn þýskra sagna. Sumt var þó örugglega þýtt hér
á landi, t.d. Alexanders saga, sem Brandur Jónsson biskup á að hafa þýtt úr
latínu. Klári (eða Klárus) saga er eignuð öðrum biskupi, Jóni Halldórssyni í
Skálholti, og segist einnig vera þýðing úr latínu, en fyrirmyndin finnst hvergi.
Loks má nefna sögur eins og Breta sögur og Trójumannasögu, báðar þýddar úr
latínu.
Um þessar þýddu sögur hefur verið töluvert skrifað, en þó nær eingöngu af
erlendum fræðimönnum,2 einkum þýskum og frönskum, enda eru þær oft
hinar merkilegustu heimildir um miðaldaverk annarra Evrópuþjóða. Mikilvægi
þeirra er sem sé fólgið í því að þær varpa ljósi á frumgerðirnar, verk sem hafa
stundum afmyndast eða jafnvel glatast með öllu annarsstaðar. Að öðru leyti eru
þær eingöngu athyglisverðar vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem þær hafa haft á
íslenskar bókmenntir, en um það mun ég fjalla síðar.
í öðru lagi eru riddarasögur frumsamdar á Islandi, þær elstu frá því um lok
13du aldar, en alls hafa um 30 slíkar sögur varðveist frá því fyrir siðaskipti. Þær
eru stundum kallaðar lygisögur til aðgreiningar frá þýddu sögunum. Það nafn
þykir óheppilegt, sökum þess neikvæða dóms sem í því felst, en var þó notað
allmikið um tíma, einkum af erlendum fræðimönnum. Gustaf Cederschiöld,
sem var meðal þeirra fyrstu til að gefa frumsamdar riddarasögur út vísindalega3
bjó til heitið fornsögur suðrlanda, en það heyrist varla lengur. Víða er einnig
gripið til þýska heitisins Márchensagas, einkum á seinni árum. Þó er mjög oft
enginn greinarmunur gerður á þessum sögum og þýddu sögunum. Ég tel
alrangt að flokka þessar tvær tegundir saman. Þótt þýðingar hafi óneitanlega
áhrif á viðkomandi menningarumhverfi, þá eru þær ekki sprottnar úr því
umhverfi á sama hátt og frumsamin verk, hversu sterk sem áhrif erlendra verka
kunna að hafa verið. Það gæti t.a.m. verið fróðlegt að skoða hvaða áhrif
þýðingar Guðbergs Bergssonar á verkum Gabriel García Márquez, eða jafnvel
Cervantes, hafa haft, ekki bara á Guðberg sjálfan, heldur á íslenska nútíma-
rithöfunda almennt. Hinsvegar gæti það komið nokkuð spánskt fyrir sjónir að
sjá Hundrað ára einsemd eða Don Kíkóta flokkuð sem nútíma íslensk verk, eða
þá að sjá verk Guðbergs flokkuð sem spænsk verk, en slíkt gerist oft þegar
riddarasögurnar eru annarsvegar: þeir eru margir sem telja riddarasögurnar - og
þá ekki bara þýðingarnar, heldur einnig þær frumsömdu - ekki til íslenskra
sagna.4 En íslensku riddarasögurnar, þótt þær byggi að einhverju leyti á er-
lendum sögnum, eru frumsamdar af íslendingum, á Islandi, handa Islendingum.
Þær eru m.ö.o. íslenskar sögur.
Vinsældir þessara sagna á fyrri öldum verða varla ofmetnar: þó nokkuð
margar þeirra, sögur eins og t.d. Bxrings saga, Jarlmanns saga ok Hermanns,
Mágus saga, Sigrgarðs saga frækna, Sigurðar saga þögla, og Vilhjálms saga sjóðs