Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 150
148
Torfi H. Tulinius
Það er einmitt vegna þess að höfundur Samsons sögu heldur efni fornaldar-
sögunnar og efni riddarasögunnar svo vandlega aðskildu, með því að binda það
við sitthvort sögusviðið, sem fróðlegt er að skoða hvernig hann leiðir lesanda
sinn úr einum heimi í annann.
Hvernig gefur höfundurinn njótendum sögunnar til kynna að hann er að
leiða þá úr heimi riddarasögunnar inn í heim fornaldarsögunnar? Það er ósköp
einfalt. I upphafi sögunnar er njótendum hennar gefið í fáum orðum til kynna
að sagan fari fram í heimi riddarasögunnar, með því að staðsetja söguna í
Englandi og láta hana fara fram á dögum Artús konungs. I sjálfu sér væri þetta
nóg, en höfundurinn bætir um betur og notar riddarasöguleg lýsingarorð til að
lýsa söguhetjunni sem er „kurteis og hæverskur" og „skartsmaður mikill“. Til
að taka af allan vafa um hvers konar heim hann er að leiða lesendur sína og/eða
áheyrendur í segir höfundur um systur söguhetjunnar að hún var „lærð og
menntuð á flestar hannyrðir, þær er jungfrúm voru tíðar.“
En hvað gerist svo þegar á að fara að skipta um sögusvið? Þá rýfur höfundur
einfaldlega frásögn sína og segir: „Hér byrjar upp annan hlut sögunnar, og
tekur þar til, að Goðmundur hét konungur. Hann átti að ráða austur á Glæsi-
völlum." En Goðmundur sá er jafnmikill höfðingi fornaldarsöguheimsins og
Artúr ríkir yfir heimi riddarasögunnar, og er nafn hans nóg til að gefa njót-
endum sögunnar til kynna í hvaða heim verið er að leiða þá.
Það er engin tilviljun að aðeins Kvintalín og aðstoðarmaður hans, dvergur-
inn Grélant, geta ferðast úr heimi riddarasögunnar norður á slóðir fornaldar-
sagnanna. Það tengist ólíkum hlutverkum heimanna tveggja í sögunni. Höf-
undur leggur mikla áherslu á að gera frásögn sína af tröllabyggðum norðursins
eins gróteska og mögulegt er. Hann leggur mikið upp úr heimsku þeirra sem
þar búa og lýsingar hans eru stórkarlalegar. Svona er sagt frá því er Sigurður,
sem er aðalpersónan í norðurslóðakafla sögunnar, skilur við Skrímni jötna-
konung tengdaföður sinn, eftir að slest hefur upp á vinskapinn :
„En er Sigurður tók í hönd mági sínum, hóf hann upp stafinn og rak við eyra honum,
svo hausinn brotnaði, en augun hrutu úr höfðinu á honum. Skildi þar með þeim
mágum vinskapinn."
Hlutverk Kvintalíns er einmitt að vera gróteskur í riddarasöguhluta Samsons
sögu. Því er hann gjaldgengur í fornaldarsöguhlutann.
Þessi gróteski heimur norðursins gegnir ákveðnu hlutverki í samanburði við
fágaðri heim suðursins, en það er að vera nokkurs konar kómísk andstæða hins
síðarnefnda, eins og kemur vel fram í ofangreindri tilvitnun. Bendir þetta til
þess að á fjórtándu öld, hafi höfundar lygisagna enn gert greinarmun á heimi
fornaldarsögunnar og heimi riddarasögunnar, og er því vafasamt að hætta alveg
að skilja milli þessara bókmenntategunda, en þeirrar tilhneigingar hefur gætt á
síðustu árum.