Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 106
104
Guðmundur Andri Thorsson
2. þáttur fer fram í Noregi og eru það kaflar 17-25. Þátturinn hefst úti á
rúmsjó og þar er undirstrikað hversu Grettir þykist yfir aðra hafinn því hann
gerir ekki handtak en lætur fjúka í kviðlingum milli þess sem hann klappar um
kvið konu stýrimanns. Enn erum við ekki farin að sjá að Grettir sé annað en
ungur oflátungur, orðaspjátrinu fylgja engin verk sem réttlæti það, enn er
persóna hans heldur ógeðug.
En þá verða hvörf. Það kemur rok og með fádæma dugnaði í byttuaustri
sýnir Grettir og sannar að þegar mikið liggur við reynist hann hollvættur.
Honum fyrirgefst nú letin og hvinnskan og eftir þessa fyrstu dáð er líkt því sem
sjálfsmynd hans breytist, hegðun hans skánar nokkuð og við sjáum hann skima
óþreyjufullan eftir nýju þrekvirki að drýgja. Hann hefur öðlast tilvistarlega
réttlætingu. I þessum hluta sögunnar gengur honum flest í haginn; hann gengur
í haug, snýr á berserki og drepur þá, snýr niður bjarndýr og verður frægur af
verkum sínum.
Á endanum verður hann þó sigraður því hann skilur ekki að eitt kann að
gilda í viðskiptum við óvætti en annað í viðskiptum við menn: hann er of skap-
bráður og drepur smámenni sem ögra honum og það kemur honum í koll.
Hann bregst rétt við samkvæmt siðaboði víkingsins sem þolir engum að fara
um sig lítilsvirðandi orðum - en rangt samkvæmt siðakerfi samfélagsins sem
gerir ráð fyrir að menn geri út um deilur sínar á annan hátt. Þrátt fyrir velgengni
og sýnilegt drenglyndi er andstæðan vígamaður-samfélag smátt og smátt að
koma í ljós, sá brestur sem síðar meir verður gjá.
3. þáttur gerist á Islandi og er það margbrotnasti hlutinn, þar eru örlög
Grettis ráðin. Þetta eru kaflar 28-38. Á undan fara nokkrir kaflar sem eru um
dráp Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds á Þorgilsi Mákssyni
og eftirmál þess. Framan af einkennist þessi hluti sögunnar af því að Grettir er
á röngum stað í tíma og rúmi. Hér eru allir að hugsa um búskap og þess háttar
hluti og Gretti gengur ekkert að finna verðug átök. Ofsi hans fer stigvaxandi.
Hann byrjar á því að reyna að útkljá gamlar erjur við Auðun Ásgeirsson og
ræðst á bónda, en þau átök fjara út og þeir sættast að lokum. Hann reynir að fá
að vera með í Heiðarvígum en Barði Guðmundsson og félagar vilja ekkert með
hann hafa; hann situr þá fyrir þeim en ekkert verður úr bardaga, fremur en
stuttu áður við Þorbjörn öxnamegin sem hefur átt í deilum við Atla, bróður
Grettis. Andstæða vígamanns og samfélags er hér dýpri og alvarlegri en í
Noregsþættinum: kappinn fær enga útrás fyrir bardagafýsn sína og það rekur
hann til þess að stíga það óheillaspor að glíma við Glám. í lok 31. kafla, áður en
Glámsþátturinn hefst, segir: „Þá þótti Gretti mikið mein er hann mátti hvergi
prófa afl sitt og fréttist fyrir ef nokkuð væri það er hann mætti við fást“ (bls.
1003). Glíman við Glám breytir síðan lífi hans og þessum þriðja hluta lýkur á
því að hann vegur Þorbjörn ferðalang fyrir ærumeiðingar og heldur til Noregs
til að vinna þar hylli nýs konungs, Ólafs Haraldssonar.
4. þáttur er hliðstæða 2. þáttar nema allt er hér hrapallegra. Báðir byrja þeir
á ævintýri á leiðinni til Noregs, og í báðum er Grettir að hjálpa skipverjum í