Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 102
Grettla
GUÐMUNDUR ANDRI THORSSON
Þegar Grettir breiddi skyrtu til þerris á Reykjarnibbu þá breytti sandurinn lit
sínum og varð hvítur. Heitir þar Grettisskyrta og er gríðarmikið hvítt flæmi.
Önnur slík er á Staðarfjöllum í Skagafirði. Um allt land eru gljúfur og hæðir,
tindar og steinar sem bera nafn Grettis. Sé gljúfur ófært, tindur ókleifur, steinn
svo mikill að enginn lyftir virðist alþýða manna umsvifalaust hafa tengt nafn
Grettis þar við, því hann stökk yfir gilin, kleif tindana og hóf upp björgin sem
enginn annar.1
Grettir Ásmundarson er sá fornsagnakappi sem mest munnmæli hafa gengið
af með alþýðu. Saga sú sem af honum er virðist ekki hafa svalað þorsta fólks
eftir frásögnum af honum. Það er ekki að undra að hann hafi verið útnefndur
sérlegur þjóðardýrlingur af Halldóri Laxness2 og séra Matthías hafi staðhæft í
Grettisljóðum sínum: „Þú ert Grettir, þjóðin mín“.3 Grettir er aðeins að hálfu
mennskur - að hinu leytinu er hann vættur, hluti þeirrar mögnuðu náttúru sem
hann hafðist við í, tröllsleg táknmynd íslensku öræfanna. Og leikur á ýmsu
hvort sú vættur er í eðli sínu góð eða ill, kannski er hún hafin yfir þvílíkar
mannlegar mælistikur. Séra Matthías útmálar hann í fyrrgreindum Grettis-
ljóðum sem fulltrúa Hvíta-Krists gegn fulltrúa Óðins, Glámi, en í þjóð-
sögunum er hann manntröll sem eigrar um hálendið og stundar ógurlegar
aflraunir, og í sögunni af vígslu Drangeyjar tilheyrir sú ljóta loppa sem þar
birtist illu en umkomulausu trölli, friðlausu og hundeltu skrýmsli: „Vígðu nú
ekki meira, Gvendur biskup; einhvers staðar verða vondir að vera.“4
Grettir er tragískastur allra fornra kappa því hann er hinn eini þeirra sem er
dæmdur til að lifa eftir lokaósigur sinn. Hann fær ekki einu sinni að deyja hetju-
dauða í lokin, það er eftirlátið Illuga bróður hans að fylla út í þann frásagnarlið.
Bölvun hans minnir á grískar harmleikjahetjur, lífsstríð hans er því líkast sem
maður gangi milli veggja í litlu hvítu herbergi og megi ekki setjast. Grettistýpuna
rekja menn í allar áttir, út og suður. Hann er eins og Þór í flumbrugangi sínum og
umkomulausum hrikaleik, líkist Bjólfi í landhreinsunarhlutverki sínu, minnir á
Krist í píslarvætti sínu. En engin fornhetja er annar eins þolandi í lífi sínu og
Grettir - aðrir menn eiga ævinlega upptök að áflogum við hann, hann tekur alltaf
afleiðingunum; einu áflogin sem hann fer sjálfviljugur út í eru við forynjur af ýmsu
tagi, og það frumkvæði hans verður honum að falli.
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
100