Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 120
Góðar sögur eða vondar
Athugun á nokkrum frásagnareinkennum í
Islendinga sögum,
einkum með hliðsjón af Þórðar sögu hreðu
JÓN TORFASON
Almennt er talið að sagnaritun íslendinga hafi staðið með mestum blóma á 13.
öld en hnignun hafi orðið á því sviði eftir 1300. Klassísku íslendinga sögurnar,
Njála, Laxdæla, Bandamanna saga, Hallfreðar saga og fleiri, eru ritaðar um eða
eftir miðja 13. öld en þær sögur sem ritaðar munu á 14. öld eru taldar miklu
síðri að gæðum. Því verður seint fullsvarað hvers vegna klassísku sögurnar eru
góðar en þær yngri lélegri því svörin hljóta að nokkru leyti að grundast á
smekkvísi. En það er gerlegt að ræða aðferðir höfunda sagnanna og tækni
þeirra. Hér skal þess freistað með hliðsjón af einni ungri sögu, Þórðar sögu
hreðu.1
Fræðimenn eru á einu máli um að Þórðar saga sé rituð um miðja 14. öld.
Hún telst því til flokks þeirra sagna sem ritaðar eru á því skeiði þegar sagna-
rituninni á að vera farið að hnigna.2 Hér er hún tekin sem fulltrúi þeirra íslend-
inga sagna sem munu ritaðar um líkt leyti: Finnboga sögu ramma, Kjalnesinga
sögu, Króka-Refs sögu o.fl. Litið er á ýmis atriði sem snerta frásagnarhátt og
efnismeðferð Þórðar sögu í víðum skilningi og hún þannig borin við klassísku
Islendinga sögurnar. Verður látið við það sitja hér að ræða um nokkur stök
atriði en vitanlega mætti lengi lengja þá upptalningu.3 I lokin verður drepið
lítillega á lífsskoðanir í sögunni og aðföng höfundarins.
Frásagnarbrögð Anderssons
Theodore Andersson ræðir um nokkur einkenni á frásagnarhætti Islendinga
sagna í bókinni The Icelandic Family Saga.4 Vitanlega hefur verið bent á þau
áður en hann raðar þeim skipulega upp og miðar þar einkum við klassísku
sögurnar. Þungamiðjan í byggingarmódeli Anderssons er ris þar sem hetja
fellur eða þá að örlagaríkur atburður verður í lífi hennar. Mörg frásagnar-
brögðin, sem Andersson telur upp, eiga við þetta ris. Þórðar saga fellur raunar
með engu móti inn í módel hans, m.a. vegna þess að í henni fellur engin hetja og
þar er ekkert anderssonskt ris. Þar eru það bara skúrkarnir sem deyja. Fyrir
hentugleika sakir er þó stuðst við samantekt Anderssons og fyrst hugað að því
hvaða frásagnarbrögð, sem hann telur upp, finnast I Þórðar sögu.
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
118