Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 66
64
Halldór Guðmundsson
afhjúpun þegar tálsýn er skoðuð í skæru ljósi veruleikans, svo einkennandi fyrir
gamanleiki miðalda. Háðið er fínlegra: í Don Kíkóta notfærir Cervantes sér
andstæðuna milli ótrúlega sjálfsöruggs sjálfsblekkjara og lygilegrar hógværðar
spyrils til að skapa sína sérstöku íróníu. Hún birtist t. d. þar sem Don Kíkóti
í brjálsemi sinni tilkynnir meðreiðarsveini sínum að vindmyllurnar framundan
séu risar og segir: „Sjáðu hvar þarna gnæfa ófreskir risar, þrjátíu eða þar um bil,
og ég hef í hyggju að eiga við þá bardaga og svipta þá lífinu“, og Sansjó Pansa
spyr í mesta sakleysi: „Hvaða risar?“ 4
Skáldsagan nálgast sannleikann óbeint, og slík nálgun hefur fylgt henni frá
Cervantes til Milans Kundera, sem segir í grein: „Heimska fólks felst í því að
eiga svör við öllu. Viska skáldsögunnar felst í því að eiga spurningar við öllu.“5
En við erum að tala um upphafstíma skáldsögunnar, þegar hetjan Adam er
rekin úr Paradís riddarasagna, og sú líking sýnir okkur sjálf tvísæi skáldsögu-
vitundarinnar: Brottreksturinn er í besta falli kómískur frá sjónarhorni guð-
anna, en hann er tragískur fyrir mennina. Enda hefur verið sagt að skáldsagan
birti okkur tragískar persónur við kómískar aðstæður. En tvísæi skáldsögunnar,
írónísk nálgun veruleikans, birtist líka í aukinni formvitund, vitund um
tungumál og frásagnarhátt. Sjálfsvitund frásagnarinnar kemur skýrt fram hjá
þeim mikla brauðryðjanda Rabelais: I verki hans um Gargantúa og Pantagrúel
vísar frásögnin stöðugt á sjálfa sig, verður ritúal rétt einsog sú kjötkveðjuhátíð
sem margir telja sig finna í hans verkum. Vitundin birtist ekki bara í formálum
og stöðugum höfundarinnskotum, heldur í orðaleikjum og uppfinningum,
dellurími og sýndarskrám, jafnvel leik með prentflötinn. Og okkur hlýtur að
finnast vitund hans um orðin ótrúlega nútímaleg, þar sem þau líkamnast í
sögunni hvað eftir annað, um leið og líkaminn leysist upp í orð. Um miðja 16.
öld gat franskur munkur þannig sýnt í sagnabálki sjálfsvitund skáldsögunnar,
hæfileika hennar til tvíræðni og sjálfsgagnrýni.
Þegar tiltekið frásagnarform tekur að festast í klisju, er skrifuð skáldsaga sem
skopstælir það, og vísar leið til nýrra landvinninga. Þetta síðast talda áleit
rússneski fræðimaðurinn Mikhail Bakhtin eitt höfuðeinkenni skáldsögunnar.
Ég ætla ekki að fara að endursegja hér kenningu hans um karnívalismann, það
hefur verið gert nógsamlega, og jafnvel svo að menn tala um karníval nánast
sem bókmenntalegt fyrirbæri og gleyma að kjötkveðjuhátíðin var sögulegur og
þjóðfélagslegur atburður, og vitund hennar fór ekki að móta frásagnarlistina að
verulegu leyti fyrr en hátíðin var tekin að glata þjóðfélagslegri þýðingu sinni.
En mig langar að víkja svolítið að grein sem Bakhtin skrifaði þar sem hann
fjallaði um söguljóð og skáldsögu, þann reginmun sem er á þessum gerðum
frásagnarlistar.6 Líktog fyrrnefndur Shroder leyfir hann sér að tala um skáld-
söguvitund, sem getur fundið sér ýmis form. Bakthin kallar það skáldsagna-
gervingu bókmenntagreina þegar þær verða frjálsari, fyndnari, lausmálli en
áður, og um leið opnari fyrir veruleikanum einsog hann þróast.
Það segir sig sjálft að bókmenntagrein sem er borin uppi af svo opinni vitund
er eilífur hausverkur öllum genre-fræðum, illskilgreinanleg skv. skilgreiningu.