Skáldskaparmál - 01.01.1990, Blaðsíða 198
196
Árni Sigurjónsson
finna upp á einhverju nýju og óvenjulegu. Snillingurinn var þá sagður „origi-
nal“; en nú er raunar stundum talað um órigínala í merkingunni sérvitringar og
getur þá verið niðrandi. Áhuginn á skapandi snilld var því ekki samur á
miðöldum og hann var hjá rómantískum skáldum löngu síðar. Upphafsmaður
skáldverks á miðöldum var ekki höfundur í nútímaskilningi og féll gersamlega
í skugga guðs, eða annarra þeirra sem létu hann vinna verkið. I þessu ljósi verða
menn auðvitað að hugleiða hina langvinnu leit að höfundum Islendingasagna á
árum áður. Sú leit var á skjön við eðli þessara höfundarlausu bókmennta og
hún var fyrst og fremst afsprengi laganna um höfundarétt.
Ofgakenndur áhugi á höfundum er raunar vel þekkt vandamál í bókmennta-
fræði og má í því sambandi minna á ritgerð eftir Roland Barthes, þar sem hann
deilir hart á feðrunarmeinlokuna í könnun skáldverka. „Verkið er flækt í
feðrunarferli,“ segir hann, og „gengið er út frá því að (...) verkið sé höfundar-
stimplað" (Barthes, 40). Þegar miðaldabókmenntir eru annars vegar, eru slík
barnsfaðernismál löngum fyrirfram töpuð. I þessu sambandi er við hæfi að geta
annars atriðis í hefðbundnum fornsagnarannsóknum. Það er leitin að hinum
upprunalega texta, sem að sínu leyti er einnig eins konar barnsfaðernismál.
Þessi áhugi á hinu upprunalega, þ.e.a.s. „originala“ í gamalli merkingu á að
einhverju leyti skylt við virðingu fyrri tíðar manna fyrir hinu forna. Á mið-
öldum litu menn mjög upp til fornaldarhöfunda, og það var seint sem menn
airfðust að halda fram að þeir gætu náð lengra en til dæmis Aristóteles og
Virgill.
Á sama hátt og miðaldamenn voru lítt uppnæmir fyrir frumleika þá hneigj-
ast þeir sem rannsaka miðaldarit til að hafna hvers konar nýmælum. Þeim þykir
sem nýjungagjarnir fræðimenn séu ólærðir. Ekkert er nýtt undir sólinni, hugsa
þeir, og frumleg hugsun lýsi umfram allt menntunarskorti eða þá skorti á
virðingu fyrir öldnum meisturum.
Nú má vel vera að þessi hugsunarháttur, þessi áhugi á uppruna og taumlaus
virðing fyrir fornu valdi, hafi hentað miðaldamönnum vel. En hér má vara sig
á öfgunum. Líklega er jafnvitlaust að telja jafnan hið elsta best og að telja einatt
hið nýjasta best - sem raunar loðir við á öðrum vígstöðvum. Má vera að hér
sem víðar sé hið hrútleiðinlega meðalhóf affarasælast.
í framhaldi af þessu tali um frumleika skal nú vikið nokkrum orðum að hug-
takinu bókmenntategund (genre). Þetta hugtak hefur verið bókmennta-
fræðingum hugleikið, en þó minna á 20. öld en löngum áður. Hver tegundanna:
saga, leikrit og ljóð, hefur sín einkenni og ótal undirgreinar. Menn velta fyrir
sér hvar mörk hinna ýmsu tegunda liggja og hver einkenni þeirra eru. Oft
verður það ágæt aðferð til að glöggva sig á verkum að gera sér ljóst hvernig
þeim má skipa í flokk.
I fornöld gerðu menn sér ljósan mun bókmenntategundanna, og um margra
alda skeið litu menn svo á að tegundirnar væru náttúrulegir flokkar og í sam-
ræmi við eðli tungumálsins og bókmenntanna. Á miðöldum var jafnvel litið