Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 79
79
byltingarinnar, Pantheon-hofinu í París, en í kringum 1790 ákvað þingið
að breyta nýendurbyggðri kirkju heilagrar Geneviève í Latínuhverfinu í
samastað fyrir andleg mikilmenni þjóðarinnar. Þar leystu jarðneskar leif-
ar manna á borð við Voltaire, Rousseau og Zola helga dóma kirkjunnar
beinlínis af hólmi.
Helgir dómar
Í trúarlegu samhengi vísar hugtakið helgir dómar ýmist til jarðneskra
leifa dýrlings eða annarra gripa sem tengjast lífi og örlögum viðkomandi
einstaklings. Þekkt dæmi um hið síðarnefnda eru flísar úr krossi Krists
sem haldið er fram að Helena, móðir Konstantínusar keisara, hafi haft
meðferðis frá landinu helga á fjórðu öld. Þessar flísar skipa heiðurssess
í kirkjum víðs vegar um heiminn.24 Hér á eftir verður hugtakið helgir
dómar notað í víðtækri merkingu um margs konar leifar menningarlegra
þjóðardýrlinga sem varðveittar eru með markvissum hætti af opinberum
aðilum, þar á meðal bein eða eftirmyndir af líkama viðkomandi og gripi
eða jafnvel heilu byggingarnar sem tengjast lífi hans.
Líkami dýrlingsins
Þó að áþreifanlegar líkamsleifar þeirra Prešerens og Andersens séu ekki
opinberlega til sýnis í Slóveníu eða Danmörku er gröfum þeirra beggja
sérstakur sómi sýndur. Árið 1852, þremur árum eftir að sá fyrrnefndi lést,
var kista hans flutt úr jaðri kirkjugarðsins í Kranj á betri stað í garðinum
og afhjúpaður þar bautasteinn sem áhrifaríkur menningarfrömuður og
ritstjóri, Janez Bleiweis, hafði efnt til samskota fyrir. Nýr kirkjugarður var
tekinn í notkun í bænum árið 1939 og þrettán árum síðar var ákveðið að
breyta gamla garðinum í minningarlund Prešerens. Auk legsteins hans,
dóttur hans og örfárra þekktra einstaklinga sem höfðu verið grafnir í garð-
inum er þarna að finna brjóstmynd eftir Lojze Dolinar af skáldinu.25 Með
þessu samhengi byggir á Kim Simonsen, „The Making of the Hagiography of a
19th Century Poet and Sailor. Remembrance, icons, Sacred Places and the Relics
of Martyrdom in the life of Nólsoyar Páll“, óbirtur fyrirlestur fluttur á ráðstefnunni
Memory and forgetting in the North Atlantic. Imagological and Postcolonial Perspectives
í Kaupmannahafnarháskóla 23. nóvember 2010.
24 Sjá meðal annars Carsten Peter Thiede og Matthew D’Ancona, The Quest for the
True Cross, London: Phoenix, 2000.
25 „Preseren’s Grove“, Kranj – Slovenia: http://kraji.eu/slovenija/presernov_gaj/eng
[sótt 14. apríl 2011].
MENNiNGARLEGiR ÞJÓÐARDÝRLiNGAR EVRÓPU