Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 226
226
Popper svaraði Lakatos fullum hálsi. Hann sagði að Lakatos hefði
orðið fyrir miklum áhrifum frá óbirtu handriti sínu þar sem hann (Popper)
talar um frumspekilegar rannsóknaráætlanir. Öll vísindi séu gegnsósa af
frumspeki og kosmólógískum spekúlasjónum, því leiki þessar áætlanir
mikilvægt hlutverk í vísindum, skapi þeim farveg og ráði stefnu þeirra. En
þær séu ekki prófanlegar, alla vega ekki á upphafsskeiði sínu.61 Hann tekur
þróunarkenninguna sem dæmi. Strangt til tekið sé kenningin um að hinir
best aðlöguðu lifi af hrein klifun: Þeir sem lifi af séu best aðlagaðir en það
að lifa af sé skilgreiningaratriði um bestu aðlögun. Þannig sé þróunar-
kenningin strangt til tekið ekki afsannanleg en sé þó frjó frumspekileg
rannsóknaráætlun.62
Svo hamaðist Popper við að segja að Lakatos hefði misskilið sig og
hamraði á gömlu frösunum sínum um að alvöru vísindakenningar væru
hrekjanlegar.63 Popper var vissulega snjall heimspekingur en oft ómál-
efnalegur í rökræðum og það þótt hann hafi lofsungið mátt hinnar frjálsu
rökræðu. Kenning og reynd fara ekki alltaf saman.
Alla vega hefur Lakatos örugglega á réttu að standa er hann segir að
kenningar geti komið aftur með stæl. Einnig er rétt hjá honum að kenn-
ingar Poppers drepi of hratt. Auk þess hittir Lakatos í mark þegar hann
segir að vísindakenningar myndi með nauðsyn kerfi og að drjúgur hluti
þess geti verið óhrekjanlegur. Annað er röklega útilokað í ljósi hinnar kór-
réttu kennisetningar Duhems og Quines. Hinn meginþátturinn í þessari
fjórðu mótbáru gegn speki Poppers er sá að engin ástæða sé til að dýrka
grams“, Criticism and the Growth of Knowledge, ritstj. I. Lakatos og A. Musgrave,
Cambridge: Cambridge University Press, 1970, bls. 91–197. Imre Lakatos, „Popper
on Demarcation and Induction“, The Philosophy of Karl Popper, 1. bindi, ritstj. P. A.
Schilpp, La Salle, Il: Open Court, 1974, hér bls. 241–273. Bandaríski heimspek-
ingurinn Hilary Putnam setur fram svipaða gagnrýni á Popper, notar svipuð dæmi
en nefnir hvergi hugmyndir um rannsóknaráætlun og annað slíkt. Hilary Putnam,
„The Corraboration of Theories“, Philosophy as it is, ritstj. T. Honderich og M.
Burnyeat, Harmondsworth: Penguin, 1979 [1974], bls. 353–380. Popper sakaði
Putnam um að hafa gert sér upp þá skoðun að hjálparkenningar kæmu hvergi við
sögu vísindanna. Karl Popper, „Replies to my Critics“, The Philosophy of Karl Popper,
2. bindi, bls. 994. Putnam svaraði fullum hálsi og benti á að hann hefði sagt beinum
orðum að Popper gerði ráð fyrir slíkum kenningum. Putnam, „The Corraboration
of Theories“, bls. 371 og 377–380.
61 Karl Popper, „Autobiography of Karl Popper“, bls. 119–121 og 175.
62 Sama rit, bls. 133–143.
63 Karl Popper, „Replies to my Critics“, The Philosophy of Karl Popper, 2. bindi, bls.
999–1013.
STEFÁN SNÆVARR