Skírnir - 01.01.1952, Side 43
Skírnir
írskar sögur og ensk-írskar bókmenntir
39
ósvipaðan Arnesi í Fjalla-Eyvindi. Hann er ástfanginn af
Deirdre, en hún hrindur honum frá sér líkt og Halla Arnesi.
Hann kemur fram í II. þætti í Skotlandi, varar Deirdre við
örlögum hennar og ræður sér bana, þegar Deirdre og Naoise
ákveða að snúa aftur til Irlands. Owen (eða Eoghan) kann
að vera sniðinn eftir Eoghan mac Durthacht í eldri gerðinni.
Ætlaði Synge að vinna betur úr þessari persónu, en dó,
áður en hann komst til að endurskoða leikritið. Engu að síður
skiptir Owen miklu máli, því að með honum gefst tilefni til
mikillar efnisbreytingar, þar sem er ósk Deirdre um að snúa
aftur til írlands. Kemur það ekki fyrir í neinni gerð áður,
að Deirdre hvetji Naoise til að snúa aftur til Irlands og í
dauðann. Og það er Owen, sem kemur þessu inn hjá henni.
Tökum eftir hinu hispurslausa orðbragði, þegar Owen er að
gefa henni í skyn, að Naoise kunni að gerast leiður á henni:
„Það er Naoise, Naoise, er það ekki? Þá skal ég segja þér, að þú átt
eftir að hafa ánægjuna af því einhvern daginn að sjá ónærgætnina í
sauðarsvipnum á honum, er hann lítur á þig..Faðir minn var vanur
að kyssa Lavarcham úti um lyng og móa.......og nú gæti hún fælt
hrafn frá hræi uppi á hól. Drottningar gerast gamlar, Deirdre, hinir
hvítu, löngu armar lafa niður, og þær verða bognar í baki og krepptar.
Ég segi þér, að það er aumt að sjá drottningarnef teygja sig niður, eins
og það ætli að klóra henni á hökunni."
Deirdre heyrir Naoise síðar játa það fyrir Fergusi, að hann
óttist, að sá dagur kunni að koma, er hann verði leiður á
henni og hún viti það. Verður þetta að lokum til þess, að hún
telur Naoise á að snúa aftur til Irlands og í dauðann, sem
þeim er fyrirbúinn.
Synge gerir Deirdre mýkri, dregur úr hetjuskapnum og
hefur hana mannlegri. Valda þessu einkum, að ég hygg, áhrif
frá írsku fólki, sem hann þekkti. Frá þeim degi, er W. B.
Yeats réð honum í París að fara til Araneyja úti fyrir vestur-
strönd Irlands, hafði Synge fundizt hann vera í samhljóman
við þetta fólk. Viðhorf þess mótuðu upp frá því að miklu
leyti lífsskoðanir hans. Og Conor, Deirdre og Naoise verða
hjá honum að vanalegum mönnum, sem eyjarskeggjar hefðu
getað þekkt og kunnað að lýsa á vísu hins fábrotna lífs í eyj-
unum.