Skírnir - 01.01.1952, Page 53
Skírnir
Halldór Kiljan Laxness
49
sæishöfundum. Skáldskapur er annað og meira en hermilist.
Hitt er auðvitað mál, að það má þræða veruleikann misjafn-
lega nákvæmlega í persónulegri listtúlkun, og þarf sá munur
tjáningarháttarins ekki að vera nein úrslitarök um sannleiks-
gildið. Þegar safngler beinir dreifðum sólargeislum í einn
brennidepil, sjáum við vissulega í honum sólarljós, þótt það sé
ekki venjuleg hversdagsskíma, finnum í honum sólarhita, þótt
hann sé magnaður. Svipað finnst mér um skáldskap Kiljans.
Uppspretta hans er mannlífið, kjarninn raunveruleikinn. En
raunheimurinn tekur myndbreytingum í skáldheimum hans.
Lífið verður honum sjaldnast bein fyrirmynd, heldur öllu
fremur hráefni listarinnar. Hið sundurlausa er tengt saman,
hið ruglingslega skipulagt, flest fært í aukana, ýkt, skýrt;
ljósið verður bjartara, skuggarnir dýpri, konan getur fengið
madonnusvip, bóndinn tröllssnið. Sögurnar geta orðið að
nokkru leyti ævintýra- eða dæmisagnakenndar, stundum
fremur táknrænar en dagsannar, en standa allt um það djúp-
um rótum í raunveruleikanum, eru ekki að síður ósvikin
tjáning mannlegrar reynslu. Lífið er endurskapað í áhrifa-
meiri, stórbrotnari mynd, í skáldlegra, fullkomnara formi. —-
Fyrir þá, sem telja slíka úrvinnslu skáldsins úr lífinu brot
gegn sannleikanum, vil ég fara með þessi orð Stephans G.
Stephanssonar, sem skrifuð voru skömmu áður en Halldór
var í heiminn borinn: „Það verður aldrei skáldlegt listaverk,11
segir hann, „að taka nákvæma ljósmynd af öllu, sem sézt
getur og við borið í sögu. Lífið, eins og það líður, er ekki
skáldlegt, herra trúr! Ég vil aðeins fella saman áhrifamestu
kaflana, einn héðan, annan þaðan, strika yfir allt, sem vefst
bara fyrir og ekki hefur þýðingu, gera heilt ár að einum degi,
ef á þarf að halda .... Skáldskapur er það að hrífa einkennis-
sálir, útskýrandi viðburði, út úr þessari hrúgu af sambands-
lausu rusli, lífinu . . . Mennimir og viðburðirnir . .. eru úrval
höfundarins úr sannleikanum, til að skýra hugsjónina og
listina."1)
En vel á minnzt -—■ hugsjónin, segið þið. Er ekki einmitt
1) Bréf og ritgerðir Stephans G. Stephanssonar I, bls. 73 og 85.
4