Skírnir - 01.01.1952, Side 58
54
Jón Gíslason
Skímir
vísu verðum vér Islendingar slíkrar vanrækslu á klassiskum fræðum ekki
eins fljótt varir, af því að vér eigum svo dýrmæta arfleifð þjóðlegra fræða.
Af tveim þáttum er menning vor samt slungin: hinum samevrópska, sem
rekja má til Aþenu og Rómaborgar, og hinum norræna, rótföstum meið
í vorum eigin barmi.
„Ríki“ Platons telst til þeirra rita, sem menningarsókn þjóðar vorrar
væri fengur í að eignast á íslenzku. Kemur þar hvort tveggja til, ófyrnt
ágæti ritsins sjálfs og hins vegar hin víðtæku áhrif þess í allar áttir frá
upphafi. Það er ein þessara fáu bóka, sem líkja má við vita, er mann-
kynið hefur kveikt á för sinni til fyrirheitna landsins, kyndil í leit
mannsins að hamingju.
Ekki er Platons svo getið, að mönnum verði ekki jafnframt hugsað til
Sókratesar. Valdi Platon ritum sínum samtalsform, og er Sókrates þar
aðalpersónan. Er enginn vafi á, að Platon hefur með því í senn viljað
heiðra meistara sinn og varðveita minninguna um persónu hans og kenn-
ingu. Annars lýsir Platon Sókratesi svo, að hann hafi haft fremur illan
bifur á bókum. 1 „Phaedrus" lætur hann Sóki-ates mæla eitthvað á þessa
leið: „Því að ég hygg, Phaedrus, að þetta sé meinbugur á rituðu máli og
að því sé að þessu leyti likt farið og málaralist. Persónur málaralistar-
innar standa frammi fyrir manni, eins og þær væru lifandi. En ef þær
eru spurðar spurninga, þá eru þær afar hátíðlegar og segja ekki orð. Svona
er því farið með ritaðar ræður. Maður gæti haldið, að þær töluðu, eins
og þær væru skyni gæddar. En ef mann langar til að skilja eitthvað, sem
þær eru að segja, og spyr þær um það, þá kemst maður að raun um, að
þær eru í sífellu að endurtaka sömu klausuna. Enn fremur flækist hver
ræða, sem eitt sinn hefur verið skráð, úr einni hendi í aðra, bæði meðal
manna, sem skilja hana, og eins hinna, sem hún á ekkert erindi til. Hún
veit ekki, hverja hún ætti að ávarpa og á hverja hún ætti ekki að yrða.
En þegar hún er misskilin og á hana ráðizt með röngu, þarf hún alltaf
á föður sinum að halda til að rétta hlut sinn.“
Vafalaust hefur Platon viljað ráða að nokkru bót á þessum galla ritaðs
máls með því að semja bækur sínar í samtalsformi, eins og hann væri
aðeins að rekja orði til orðs samtöl og kappræður, sem eitt sinn hefðu
átt sér stað. Þar fljúga spumingar, svör og andmæli fram og aftur sem
á vængjum hins lifandi orðs. Hins vegar eru þetta hnitmiðuð listaverk,
svo að ekkert eimir þar eftir af ófullkomleik óþvingaðra orðræðna. Allt
er rökfast, slétt og fellt, svo að einmitt þess vegna dregur úr hinum hress-
andi andblæ, sem venjulega fylgir samtölum daglegs lífs.
Platon var rúmlega tvítugur að aldri, er Peleifsskagastyrjöldinni, ein-
víginu mikla milli Spörtu og Aþenu 431—404 f. Kr. b., lauk með algerum
ósigri Aþenuborgar. Fimm árum síðar var málareksturinn á hendur Sókra-
tesi, meistara hans, sem lauk með þvi, að spekingurinn var af lifi tekinn.
Hafi Platon ekki verið búinn þá þegar að fá skömm á stjórnmálaþrasi
ættborgar sinnar, þá virðist þessi atburður að minnsta kosti hafa fyllt