Skírnir - 01.01.1952, Side 65
Skírnir
Ríki Platons
61
Mér þótti gaman að hlusta á hann og langaði til að heyra
meira. Til að örva hann sagði ég: „Já, Kefalos, en ég er anzi
hræddur um, að fólk leggi ekki almennt trúnað á þessi um-
mæli þín. Það mun telja, að það séu auðæfi þín, en ekki
skaphöfn, sem geri þér ellina léttbæra, auðurinn sé margra
meina bót.“
„Þú hefur rétt að mæla,“ svaraði hann, „fólk leggur ekki
trúnað á þetta. Og það hefur líka nokkuð til síns máls, en
ekki eins mikið og það heldur. Ég gæti svarað því á sömu
lund og Þemistokles svaraði manninum frá Serífos. Maðurinn
frá Serífos var að skamma Þemistokles og hélt því fram, að
frægð sína ætti Þemistokles ekki verðleikum sínum að þakka,
heldur væri hún sprottin af því, að hann væri Aþeningur.
Svaraði þá Þemistokles: „Ef ég hefði fæðzt á Serífos, en þú
í Aþenu, hefði hvorugur okkar orðið frægur.“ Hinu sama
mætti svara þeim, sem eru ekki ríkir og finnst ellin örðug.
Jafnvel góðum manni og geðprúðum verður ellin erfið, ef
hann er örsnauður. En sá, sem hvorki er nægjusamur né vel
skapi farinn, öðlast ekki heldur ánægju og frið í ellinni, þó
að hann ætti auð fjár.“
„Hvernig er það, Kefalos, hlauzt þú auð þinn aðallega að
erfðum, eða hefur þú aflað hans sjálfur?“
„Aflað, Sókrates? Viltu fá að vita, hversu mikils ég aflaði?
Sem fjáraflamaður er ég mitt á milli afa míns og föður: Afi
minn, sem ég er heitinn eftir, erfði álíka miklar eignir og ég
á nú og jók þær síðan stórum. En hjá Lysanías, föður mín-
um, rýrnuðu eignirnar, svo að þær urðu minni en þær eru
nú. Ég þykist ánægður, ef synir mínir hérna fá ekki minna,
heldur nokkru meira en ég tók að erfðum.“
„Ég spurði að þessu,“ sagði ég, „af því að ég hef ekki orðið
þess var, að þér þætti tiltakanlega vænt um peninga. Er því
oft þannig farið um þá, sem hafa ekki sjálfir aflað þeirra. Sá,
sem aflar fjárins, hefur á peningum helmingi meiri mætur.
Alveg eins og skáldin unna ljóðum sínum og feðurnir sonum
sínum, þannig gera líka fjáraflamennirnir gælur við peninga
sína, eigi aðeins sakir nytsemdar fjárins, svo sem aðrir menn,
heldur einnig af því, að það er þeirra sköpunarverk. Þessir