Skírnir - 01.01.1952, Page 72
68
Jón Gíslason
Skímir
þeim virðast margir góðir, þó að þeir séu það ekki í raun
og veru, og öfugt?“
„Það er satt.“
„Þeir, sem vaða í slíkri villu, verða þá óvinir hinna góðu
og vinir hinna vondu?“
„Alveg rétt.“
„Fyrst svo er, telja þeir rétt að vinna hinum vondu gagn
og hinum góðu ógagn?“
„Auðs j áanlega.“
„En góðir menn eru réttlátir og fremja ekki ranglæti?"
„Rétt er það.“
„Samkvæmt röksemdafærslu þinni er þá rétt að gera þeim
illt, sem ekkert ranglæti fremja.“
„Engan veginn, Sókrates. Þessi röksemdafærsla getur ekki
staðizt.“
„Þá geri ég ráð fyrir,“ sagði ég, „að rétt sé að vinna hinum
ranglátu tjón, en hinum réttlátu gagn?“
„Já, það virðist betri niðurstaða en hin.“
„En þá komumst við að þeirri niðurstöðu, Polemarkos, að
allir, sem skjátlazt hefur í dómum sínum um menn, breyta
því aðeins rétt, að þeir vinni vinum sínum ógagn, en óvinum
sínum gagn, af því að hinir fyrrnefndu eru vondir, en hinir
síðarnefndu góðir. Snúum við þannig ummælum Símonídesar
gersamlega við.“
„Vissulega,“ sagði hann, „verður afleiðingin sú. Við verð-
um að skipta um forsendur. Við verðum að leiðrétta villu,
sem okkur virðist hafa orðið á í notkun orðanna vinur og
óvinur.“
„Hvaða villa er það, Polemarkos?“ spurði ég.
„Við gerðum ráð fyrir, að sá væri vinur, sem virtist vera
eða væri talinn góður.“
„Og hvernig á að leiðrétta þetta?“ spurði ég.
„Við ættum heldur að segja, að sá væri vinur, sem bæði
virtist vera og væri góður, og að sá, er aðeins virðist vera
góður, en er það ekki, hann virðist aðeins vera vinur, en sé
það ekki. Hið sama gildir og um hugtakið ,óvinur‘.“