Skírnir - 01.01.1952, Page 102
98
Jóhann Sveinsson
Skírnir
Fyrri hluti vísunnar er hér í einni hinni venjulegustu alþýðu-
gerð, en Gísli Konráðsson hefur hann þannig:
Af Hugsvinnsráðum hafi þið fátt,
hjalið margt í skugga (eða: hér er nýtt að ugga).
Vísan hefur ævintýralegan, dularfullan og laðandi blæ. Hún
hefur oft verið kveðin við börn, sem erfitt hefur verið að
svæfa. Hún er til þess fallin að setja svo mikinn geig í þau,
að þau vilja gjarna halda sér fastar í mömmu og vera hljóð.
Annars hefur þessi bragur í heild þótt skemmtilegur, og til
skamms tíma hefur fyrsta vísan úr bragnum verið á alþýðu
vörum:
I myrkri sátu mæðgur þrjár;
margt var gaman að heyra.
1 ljóranum var lítill skjár;
lagði eg þar við eyra.
Fram til þessa hefur einnig f jöldi manna kunnað nokkur laus
erindi úr Fjósarímu eftir sama höfund, þótt ekki verði þau
birt hér. (Ríman er birt af dr. Jóni Þorkelssyni í Arkiv for
nordisk filologi, IV, 267—276.)
Þótt rímur þær, er Guðbrandur biskup Þorláksson fékk skáld
til að yrkja út af ýmsum bókum biblíunnar, virtust andvana
fæddar, þar sem ekkert framhald varð á slíkri ljóðagerð, hafa
þó sumar vísur úr biblíurímum Vísnabókarinnar orðið hús-
gangar og uppruni þeirra gleymzt. Má þar nefna þessa vísu
úr Síraksrímum eftir sr. Jón Bjarnason í Presthólum (á 16.
og 17. öld):
Arkarsmiðirmr unnu gagn, en aðrir nutu,
verknað hinum vanda hlutu,
í vatninu þó sjálfir flutu. (XVI, 3.)
Vísan er úr mansöng, þar sem sr. Jón er með ýmsar heim-
spekilegar og siðferðilegar bollaleggingar. Á hann hér við
smiðina, sem smíðuðu örkina hans Nóa, því að auðvitað hafði
hann fyrir satt, að Nói gamli og skuldalið hans hefði ekki
getað gert slíka stórsmíði hjálparlaust, heldur hefði þurft þar
marga smiði til. Vísan er nálega óbreytt á vörum alþýðu, og
má það kallast góð munnleg geymd, þar sem Vísnabókin
hefur vart verið lesin öldum saman af almenningi.