Skírnir - 01.01.1952, Page 118
EINAR ÓL. SVEINSSON:
UM HANDRIT NJÁLSSÖGU
I.
Einhvern tíma nærri 1280, varla fyrr, trauðla miklu síðar,
sat maður úti á íslandi og ritaði eitt hinna miklu verka heims-
bókmenntanna. Hann kallaði það Brennu-Njálssögu. Hin
miklu verk eru með fleiru en einu móti, sum öðlast alþýðu-
hylli, sum ekki. Þetta verk hlaut skjótar vinsældir og langæjar.
Þegar þetta var, var prentlistin enn ókunn, og langa lengi eftir
að hún fór að tíðkast, varð Njála ekki á vegum prentara.
Tæpar fimm aldir liðu, þangað til bókin var prentuð í fyrsta
sinni (1772). Allan þann tíma varðveittist hún í handritum.
Víst má telja, að ekki sé til snepill eftir af frumriti sög-
unnar, eigi heldur neitt eftirrit eftir því; hún virðist aðeins
varðveitt í eftirritum eftirrita, oft harla langt komnum frá
frumriti. Alkunna er það, að í hvert sinn sem texti er skrif-
aður upp, komast í hann einhverjar villur og breytingar, og
fara þær vaxandi, því fleiri sem milliliðir verða. Það er því
miður ekki nokkur von til þess, að nokkurt handritanna geymi
textann eins og meistarinn skildi við hann. En mundi ekki
mega finna ráð til að rekja sig aftur til frumtextans frá hin-
um varðveittu handritum, svo að fengin yrði eigi aðeins
vitneskja um efni sögunnar, heldur og orðfæri hennar i önd-
verðu?
II.
Fjögurra atriða er vert að gæta, þegar reynt er að meta,
hve miklar líkur séu til, að þetta takist. Þau eru:
1) Aldur handrita.
2) Fjöldi handrita.