Skírnir - 01.01.1952, Page 172
EINAR ÓL. SVEINSSON:
VÍSA í HÁVAMÁLUM OG ÍRSK SAGA
I.
1 Hávamálum stendur þessi vísa (hin 129. i útgáfu Sophus-
ar Bugge):
Ráðumk þér, Loddfáfnir!
en þú ráð nemir;
njóta mundu, ef þú nemr;
þér munu góð, ef þú getr:
Upp lita
skalattu í orrostu,
— gjalti glíkir
verða gumna synir —
síðr þitt um heilli halir.
Vísan er auðskilin að orðunum til, og fátt, sem hvert barn
á Islandi skilur ekki. Skalattu er alþekkt neitunarmynd og
merkir: eigi skaltu. Einkennilegt er orðið þitt (um heilli),
og mætti frekar búast við þik, en ekki er þó víst, að hér sé
um villu að ræða; þitt mundi geta merkt: það, sem þitt er,
en vafasamt er, hvaða nafnorð er undirskilið. En ekki skiptir
það öllu fyrir rannsókn þessa.
Loks eru svo orðin gjalti glíkir, og verður innan skamms
komið að þeim.
II.
Vísa þessi er í þeim hluta Hávamála, sem nefndur hefur
verið „Loddfáfnismál“, og er það þó naumast réttnefni, þvi
að Loddfáfnir er sá, sem kvæðið er kveðið fyrir, en ekki hinn,
sem kveður (sbr. Hávamál, Grímnismál, hæði kennd við
kveðanda). Eitt einkenni þessa kvæðis er það, að á undan
flestum ráðunum fara formálsorðin: „Ráðumk þér, Loddfáfn-
ir . . . þér munu góð, ef þú getr“, og hafa þau orð væntan-
lega í öndverðu staðið líkt og viðlag í upphafi hverrar vísu.