Skírnir - 01.01.1952, Side 229
Skírnir
Ritfregnir
223
Þetta er svo hressilega kveðið, að Hannes Hafstein hefði getað verið full-
sæmdur af. f svipaðan streng er víðar tekið. Stundum sækja þó vofur sorga
og kvalar að skáldinu. Dæmi þess er kvæðið Nætursvipir, sem þó lyktar
með þessari djúpsönnu vísu:
Þið svarið engu, aðeins þokizt fjær
og eruð senn með komu dags á flótta.
Svo lengi mun oss byrði lífsins bær
sem brjóstum vorum ferskur harmur grær.
Því hlakka ég til næstu vökunótta.
Kvæðin eru fjölbreytileg að efni. Ýmis þeirra eru helguð lífi fólksins,
önnur heimspekileg, ættjarðarkvæði eða tækifærisljóð. Listagildi þeirra er
líka misjafnt. Á þeim er kjarnmikið og safaríkt mál. Mörg eru þau hnytt-
in og haglega gerð. En smekkvísi skáldsins er ekki óbrigðul, og sums
staðar ber mælskulistin óðsnilldina ofurliði.
Einn merkasti þáttur bókarinnar eru saknaðar- og minningaljóð. Sum
þeirra eru hvöss og bitur. Skal hér eigi um þau dæmt. önnur eru rík að
samúð og skilningi. Þannig er eftirmælið um Jón Baldvinsson mjög gott
kvæði og hefur að geyma frábæra mannlýsingu. Síðasta vísa þess er svona:
Svo vann hann af sér starfsins, stríðsins dag,
en stærstur, beztur undir sólarlag,
er þakkir starfsins, þyrnikranzinn, fékk hann
og þeirra laun, sem bera fólksins kross.
Með und í hjarta kvaddi hann alla oss,
og æðrulaus til hvílu sinnar gekk hann, —
svo glöggur, að hann sá, hvað verða vildi,
svo vitur, að hann fyrirgaf og skildi.
Væri fengur að fá fleiri kvæði af þessu tagi frá hendi séra Sigurðar. Þó
að sumt í þessu kvæði mætti vera betur fágað, gleymist það vegna þeirrar
skarpskyggni og samúðar, er gefa því gildi. 1 minningaljóðum sínum nær
skáldið víða einna mýkstum tökum á hörpunni, mestri dýpt i tónum.
Annað dæmi því til sönnunar er Söngur í húsi, yndislegt ljóð um unga
stúlku, sem vann með fögrum söng hetjulegan sigur yfir „kröm á kvala-
beði“. Fáeinar hendingar teknar úr fyrri hluta ljóðsins gefa nokkra hug-
mynd um látleysi þess:
Hún var allra linda mál,
hún var allra blóma sál,
einn ómur skær í himinfegurð borinn,
og gaf því öllu rödd,
sem grær og vex og ann
og glaðast er á vorin.