Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 29
SKÍRNIR GUNNLÖÐ OG HINN DÝRI MJÖÐUR
235
hann: „Þú hefur gert góða ferð, því að ég er Sovranty, og þú munt
öðlast konungsvald yfir Irlandi.“50
Sagnaminnið um Sovereignty í álögum er algengt og alþekkt úr
miðaldasögum og dæmi um álagaminnið finnast einnig í íslenskum
ritum, eldri og yngri.51 En valkyrjurnar eru líka í álögum sumar
hverjar. Þær eru í álagasvefni. Hinn germanski kappi vekur þær að
vísu ekki með kossi heldur með því að rista af þeim holdgróna
brynjuna. I Sigurdrífumálum koma tvö minni þessarar sagnahefðar
fram: álagaminnið og mjaðardrykkurinn eins og áður er vikið að.
Trúarbragðafræðingar leggja áherslu á að álagasögurnar beri
ekki að skilja sem svo að gyðjan sé allegórískt tákn. Þeir minna á að
hún er sjálf gyðja landsins persónugerð. Töframáttur lausnarkoss-
ins í þessum álagasögum og ævintýrum er því í innsta eðli sínu sú
guðdómlega kynngi sem fólst í helgu samræði og leysti frjósemis-
öfl jarðar úr læðingi, græddi eyðilandið og læknaði mein. Kossinn
sem hún krefst er prófraun sem hún leggur fyrir hetjuna og hann
verðskuldar ekki konungstign nema standast hana. Það er eitt aðal-
einkenni allra sagna um Sovereignty að það er hún sem stjórnar at-
burðarásinni og úrskurðar hvort konungur er verðugur. Hún hef-
ur frumkvæðið og leggur fyrir hann þrautina.
Hér er um að ræða vald guðdómsins yfir mennskum manni sem
verður að gangast undir skilmála æðri máttar án þess að víla það
fyrir sér. Sé konungur hins vegar einhverra hluta vegna óhæfur til
að stjórna bitnar það á frjósemi lands og allrar skepnu. Landið
leggst í auðn og vitanlega endurspegla þau ástand hvors annars,
gyðjan og landið, því að í trúarlegum skilningi eru þau eitt og hið
sama. I miðaldasögum, t. d. Graalsögunum, er ekki einungis landið
í auðn heldur ber konan (landsgyðjan), sem rekur riddarann áfram
og stjórnar raunar allri atburðarás, svipuð einkenni, orðin sköllótt
eða almennt illa á sig komin.52
Valdsmannlegum eiginleikum heldur hún jafnvel þegar hún er
orðin söguleg persóna í annálum, sögum eða sögnum. En í sögnum
hefur fyrnst yfir upprunalegan trúar- og hugmyndaheim og kostir
gyðjunnar, verndara lands og þjóðar gagnvart veraldlegum kon-
ungi, teljast lestir í fari mennskrar konu. Sem drottning í sagnaarfi
Irlands er hún einráð og skaphörð, marggift en ekki undirgefin og
hefnigjörn sé henni gert á móti. Þegar þessi sagnaþróun er höfð í