Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 96
302
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
Skopstæling og írónía verður sífellt frelsisbragð Þórbergs, ekki síst
gagnvart þeirri persónu sem hann skapar sjálfum sér í bréfinu.
Hann beinir fljótlega sjónum að sjálfum sér: „Eg er sennilega
mælskasti maður þjóðarinnar, þegar guð gefur mér nógu marga
sannleiksþyrsta áheyrendur, enda byrjaði ég að halda ræður, er ég
var á fjórða ári“ (6). Þá fer bréfritari að rifja upp bernskuminningu
af Sigríði Arnadóttur, stúlku frá næsta bæ og víst er að fátt eru ís-
lenskir áheyrendur þyrstari í en slíka æviþætti. Þátturinn verður
aldrei nema hálf þriðja lína, ein „alþýðleg“ vísa og svo knappt í
lokin: „Sigríður andaðist úr innanmeini." Þórbergur skopast að
hverri hefð sem virðist leggja honum frásagnarskyldu á herðar og
tekur sér leyfi til að skrifa um hvað sem er, rétt eins og hann sé ekki
að skrifa útfrá væntingum neinna nema Láru. Og hann reiknar ekki
einu sinni með samúðarfullum lestri hennar. „Reyndar ert þú
„telepatiskur andstæðingur“ minn og fjandsamleg mér í pólitík.
Það grætir mig, því að mínar stjórnmálahugsjónir eru frá guði“ (9).
Þetta er því kannski bréf gegn Láru, og það samsvarar annarri lýs-
ingu Þórbergs á sköpun sinni: „Barátta gegn veruleikanum varð
hlutskifti mitt“ (8).
Lrelsi bréfritara felst í að afneita í sífellu viðtekinni hegðun og
efnistökum ritaðs máls eða skopstæla þau og þannig setur hann
óbeint fram kröfu um að fá að ræða haftalaust um hvað sem er.
Hann segir frá bernsku sinni, veður síðan yfir í útlistun á heims-
mynd sinni, þar sem stöðugt togast á afturhald og framsókn (9),
segir ferðasögu frá liðnu sumri, lýsir lærisveinum sínum í kenni-
dómi, rekur aðra ferðasögu frá 1912; seinna minnist hann á að hann
hafi mætt einhverri Helgu í Bankastrætinu (23) en fer þvínæst að
tala um veikindi sín og starfsaðstæður íslenskra rithöfunda. Ef til
vill heldur ekkert Verkinu saman annað en titill þess og undir-
skriftin sem „lokar“ textanum á síðustu síðu. Að öðru leyti er
stöðug verðandi í textanum, hann breytist með hverju viðfangsefni
sem ritari dettur niður á, hvort sem það er sjálfsævisöguleg skýrsla
um starf höfundar eða önnur hugðarefni, endursögn drauma, eða
ævintýri höfð eftir öðrum. Hvergi þarf ritari að skýra eða afsaka
það hvernig hann rásar úr einu í annað. Verkið verður að annasöm-
um vegamótum hinna ýmsu og ólíku orðræðna sem sjálfsvera text-
ans tengir sig við.