Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 42
248
HELGI HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
lipra og skjótstíga mál; þá grípa þeir oft og einatt til þess ráðs að
stytta í forminu; þeir eru til dæmis vísir til að þýða klassískan texta
af jömbuðu hexametri á stakhendu, þ. e. af sex jömbum á fimm,
svo að efni megi endast formi.
Meðal sér-íslenzkra formsatriða í brag, sem áður var getið, má
einkum nefna reglubundna ljóðstafa-skipan. En hún er í því fólgin,
að tvö - og aðeins tvö - áherzlu-atkvæði í sömu ljóðlínu skulu hefj-
ast á sama hljóði (sama bókstaf). Svo fer það eftir bragarhætti, hvar
í línu, þessi tvö atkvæði skulu standa. I fimm bragliða línu, eins og
stakhendu, getur þessi „ljóðstafasetning“ orðið á fimm vegu.
Stundum er þó aðeins einn ljóðstafur í línu, hinn sami og í næstu
línu á undan, og stendur fremst í fyrsta áherzlu-atkvæði línunnar.
Ef einhverju af þessum atriðum er hagað með öðru móti en hér var
greint, er það kallað „rangstuðlað" og lætur illa í íslenzkum eyrum.
Jambað pentametur á sér ekki langa sögu á Islandi. Skáldið Jónas
Hallgrímsson (1807-1845) notað það fyrstur Islendinga, svo vitað
sé, enda varð hann fyrstur til að yrkja íslenzk ljóð undir ítölskum
bragarháttum, sonnettu, tersínu og ottöfu. Ekki orti hann þó sonn-
ettu að hætti Shakespeares, heldur beitti hann sonnettu-formi Pe-
trarca, og fordæmi hans um meðferð pentajamba hefur ráðið gerð
þeirrar ljóðlínu á Islandi eftir hans dag. Hún var, eins og vænta
mátti, mjög regluleg, og því getur þar munað allmiklu frá hrynj-
andinni í stakhendu Shakespeares. Auk þess að nota stundum am-
fíbrakka í línulok, gerði Jónas aðeins það frávik frá fullkomlega
reglulegri jamba-hrynjandi að snúa við fyrsta jamba línunnar og
breyta honum þannig í tróka, svo að línan virtist byrja á daktíla. En
sem kunnugt er, átti Shakespeare það til að setja tróka eða sponda
í stað jamba víðar í línu en í upphafi, og var raunar óspar á slíkar að-
gerðir. Með því lagi jók hann á fjölbreytni hrynjandinnar, sem ella
gat orðið helzt til einhæf, og gat þá einatt gefið bragnum svipmeira
líf og látið formið fylgja efninu betur eftir, oft með mögnuðum
óvæntum áhrifum. Að vísu miðar ljóðstafasetningin íslenzka að
fjölbreytni í hrynjandinni án þess að raska reglulegri bragliðaskip-
an; hún skapar raunar sjálfstæða hrynjandi samhliða bragliðunum,
svo að heildar-áferð ljóðsins fær svip af eins konar kontrapunkti.
En með nokkrum hætti stendur hún í vegi fyrir frávikum af því tagi
sem Shakespeare beitir svo fagurlega. Hér á íslenzkur Shake-