Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 217
SKÍRNIR
RITDÓMAR
423
umfjöllun um verk annarra skálda, svo sem Tómasar Guðmundssonar,
Magnúsar Asgeirssonar, Guðfinnu frá Hömrum og Jóhanns S. Hannes-
sonar, og á þeim vettvangi sýnt óvenjulegt næmi sitt og skilning á listinni
og víðtæka þekkingu á öllu sem hana varðar sem og listræn tök í framsetn-
ingu efnisins. Og ofangreindir eiginleikar birtast einnig í eigin ljóðum
Kristjáns á sinn hátt og forða honum frá því að falla nokkurn tíma niður í
fen þeirrar prósaísku flatneskju, sem svo margir hafa festst í, eftir að merki
var gefið um að hið hefðbundna ljóðform væri nú löngu dautt og menn
þóttust aldeilis geta slett úr klaufunum líkt og kálfar að vori.
I fyrsta lagi hafa ljóð Kristjáns það sér til ágætis að búa yfir tónlist, sem
margir góðir menn hafa með miklum rétti talið höfuðþátt ljóðlistar. Til
þessa þáttar telst raunar stuðlun og rím, sem Kristján beitir þar sem það á
við, á fágaðan hátt, af hófsemi og frjálslega. I sjálfri uppbyggingu kvæðanna
má og greina form sem er tónlistarættar, þar sem um endurtekningu og til-
brigði ákveðinna stefja er að ræða, þannig að úr verður stundum einskonar
hringstefja eða rondó. Dæmi um þetta eru kvæðin Epli og Haf og hendur
manns.
En meginþáttur eða undirstöðuþáttur jafnt tónlistar sem ljóðlistar er
vitaskuld hrynjandin. I ljóðum Kristjáns er hún alla jafna mjúk, jöfn og
misfellulaus, en hann getur einnig brotið hana upp á óvæntan hátt og
áhrifamikinn, svo sem í ljóðinu Daglegt líf fyrir sextíu árum IV, þar sem ör-
stuttar línur eins og rjúfa frásögnina hvað eftir annað og mynda þagnir:
oní óbrotinn spegil loftsins
barn
sá til ferða hans og það tók nokkra stund . . .
Þótt við getum skynjað kvæði Kristjáns sem tónlist, er það engan veginn
á kostnað hins myndræna þáttar, - og það er ekki út í hött að meistararnir
Goya og Mondrían eru nefndir í bókinni - því mörg kvæðanna mætti ein-
mitt einkenna með orðinu mynd, ef þá ekki málverk og það fremur í af-
straktstíl en natúralískum. Skýrast kemur þetta fram í áðurnefndu kvæði,
Epli, þar sem hinum marglitu eplum: r.i^ðu, gulu, grænu og bláu er raðað
saman á mjög svo myndrænan hátt í ma: gþættri skírskotun:
Gult epli himins endurfætt
í epli grænu á hvora hönd.
Hið staka epli er alltaf rautt.
Af sama toga er einnig fyrsta ljóðið í bókinni, Undir skammdegi, þar sem
fjallið, sem löngum hefur verið ímynd hins fasta og óhagganlega, ummynd-
ast stöðugt í rás árstíða og veðrabrigða. Þar sem beitt er líkingamáli í
þrengri merkingu, er það alla jafna hnitmiðað og jarðbundið í imagiskum
stíl, svo sem þegar talað er um „snaga trjánna“ og „laufskrúð hugans“ eða