Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 140
346
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
SKÍRNIR
Landeigendur myndu, ef allt tækist vel, „ekki selja land, nema
fyrir svo hátt verð, að lítt yrði bætt úr landþrengslum og jarðnæðis-
leysi á þann hátt“.
Tillagan var samþykkt og nefndin skipuð: Jón Þorláksson sem
verkfræðingur, Gísli Sveinsson sem lögfræðingur - það þurfti að
athuga lögfræðilegar hliðar málsins, ekki síst vegna landtökuhug-
myndarinnar - og Sigurður Sigurðsson ráðunautur.
Nefndin tók ekki upp hina fyrri hugmynd Sigurðar. Hún bend-
ir á, að fáir landeigendur séu fúsir að láta af landi sínu; rétt sé að
landssjóður kaupi land af þeim sem vilja, en land sé ekki tekið lög-
námi nema þess þurfi til að tryggja framkvæmd áveitunnar.58
Nefndin telur það á óvissum rökum reist, að land í Flóanum muni
hækka í verði langt umfram áveitukostnað. Búin á svæðinu séu líka
smá, og „miklu brýnni þörf sé á því að stækka búin en að fjölga býl-
unum“.59
Þarna var þó kannski óþarft að rökræða, hvor þörfin væri
brýnni, því að naumast veitti af að gera hvort tveggja, fjölga býlum
og stækka búin, ef fullnýta ætti áveituna. En nefndin telur áveituna
geta nýst sæmilega án þess að land sé tekið af jarðeigendum, eink-
um með því að nágrannar leigi slægjur, og þá ekki síst tómthúsfólk
af Eyrarbakka og Stokkseyri.60
I lögunum um áveitu á Flóann 1917 (lögnr. 68,19. grein) er jarð-
eiganda þó heimilað „að láta af hendi land, er áveitunnar nýtur, upp
í áveitukostnaðinn, að einhverju eða öllu leyti, er sé svo stórt og
þannig lagað, að á því megi reisa nýbýli“.
A þessari hugmynd var þó alla tíð alvarlegur hængur, sem Sig-
urður búnaðarmálastjóri og Valtýr Stefánsson bentu á í umsögn
sinni um Flóaáveituna 1921. Landverð hvers býlis á áveitusvæðinu
var að jafnaði, samkvæmt fasteignamati, innan við 5000 krónur (27
kr. á hektara, tún meðtalin), en áætlaður áveitukostnaður á hvert
býli yfir 9000 krónur (90 kr. á hektara).61 Meðalbóndinn gæti látið
jörðina alla upp í áveitukostnað og skuldað enn helminginn! Þetta
var sem sagt ekki alveg leiðin, en markmiðið, nýbýli í Flóanum, gat
verið gott og gilt fyrir því. Jónas frá Hriflu segir t. d. 1922 um
Suðurlandsundirlendið, og hefur þá í huga járnbraut ásamt áveit-
unum: