Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 134
SKÍRNIR
340 HELGI SKÚLI KJARTANSSON
sem kveða á um beina styrki,34 og efling Ræktunarsjóðs (með lög-
um nr. 17) 1925, en hann veitti framkvæmdalán.35 Bæði málin
undirbjó Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, jarðræktarlögin
með Magnúsi Guðmundssyni fyrrv. ráðherraog Valtý Stefánssyni
jarðræktarráðunaut, Ræktunarsjóðslögin með Halldóri Vilhjálms-
syni búnaðarskólastjóra og Thor Jensen útgerðarmanni. Thor var
um þessar mundir að hverfa frá rekstri Kveldúlfs og byggja upp
stórbú sitt á Korpúlfsstöðum. Hann beitti sér fyrir samkomulagi
um fjáröflun til Ræktunarsjóðs með útflutningsgjaldi sem nema
skyldi alls einni milljón króna. Gjaldið lagðist aðallega á sjávarút-
veginn, var markviss tilfærsla fjármagns milli atvinnuvega, eins og
Korpúlfsstaðaframkvæmdirnar voru að sínu leyti líka.36
Sigurður búnaðarmálastjóri taldi áveiturnar miklu hafa haft
fordæmisgildi fyrir jarðræktarlögin og Ræktunarsjóð:
Með styrk þeim og lánum, sem veitt hafði verið til áveitnanna, hafði þing
og stjórn viðurkennt nauðsyn á því að styrkja bændur til umbóta. En þess-
ar áveituráðstafanir náðu hins vegar eigi nema til um 200 býla; öll önnur
býli landsins, um 6500, fengu enga hlutdeild í þessari hjálp. Því var það
eðlilegt, að sú spurning vaknaði: Getur þing og stjórn eigi rétt öllum þeim
hjálparhönd, sem vilja vinna að nýyrkju og jarðabótum, sem hafa varaniegt
gildi fyrir ræktun lands vors?37
Styrkir samkvæmt jarðræktarlögum voru veittir eftir magni
framkvæmda, t. d. lengd girðinga, stærð nýræktar, en miðað við
áætlaðan tilkostnað átti styrkur ýmist að fara nærri þriðjungi hans,
fjórðungi eða fimmtungi,38 og er það hliðstætt við fjórðungshlut
ríkisins í áveitukostnaði. Auk þess var 1929 farið að styrkja kaup
jarðyrkjuverkfæra, og fengu búnaðarfélögin fjórðung af verði
dráttarvélanna, en bændur helming af verði hestaverkfæra.39 Rækt-
unarsjóður veitti svo lánsfé í viðbót, til langs tíma en ekki sérlega
ódýrt.
Jarðabætur sex áranna 1926-31 voru styrktar samkvæmt jarð-
ræktarlögum með rúmlega 2,6 milljónum króna,40 og á sömu árum
lánaði Ræktunarsjóður til sambærilegra verkefna ríflega sömu
upphæð.41 Kostnaður bænda við framkvæmdirnar hefur svo num-
ið milljónum króna umfram lán og styrki, að vísu aðallega í vinnu
heimafólks. Nýrækt og túnasléttur námu þó á þessum sex árum