Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 93
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
299
Texta skynjum við sem ferli merkingar, eða réttara sagt sem til-
tekna hreyfingu í átt til merkingar. Texti er verkið í mótun. Hann
býður upp á ýmsa möguleika, er margradda í þeim skilningi að ekki
er ljóst hvernig táknmyndir hans muni raðast á táknmið. Táknin
eru enn í „semíótísku“ fljótandi ástandi, en við reynum að fella þau
í skorður sem gagnast okkur til „symbólsks“ skilnings43, því við
þráum að skynja verkið sem heildstæða táknmynd. Einstakir hlut-
ar allra verka, jafnvel hinna hefðbundnustu, geta alltaf „breyst" í
texta, merking þeirra lent í róttækri kreppu vegna þess hugará-
stands sem skapast við samruna textans og þess forskilnings sem
sérhver lesandi býr yfir, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða
ekki. Hinsvegar er forskilningurinn, þ. e. þau viðmið sem stýra
lestri okkar, yfirleitt í margháttaðri samvinnu við Verkið. Þegar við
hefjum lestur myndum við fljótlega þá skynheild, það ytra form,
sem við teljum að samsvari verkinu þegar það er komið heim og
saman. Slíkt er ekki gert út í loftið því væntingar okkar eru skilyrtar
af táknkerfum sem einnig eru mótandi öfl í sköpun skáldverksins.
Skáldverk þau sem hér eru til umræðu (og minnt skal á að þau
eru Verk) einkennast af nokkuð róttækum væntingabrigðum, til-
hneigingum til að halda textanum á vinnslustigi, í mótun. Þannig
bregst hann væntingum lesenda er vilja sem fyrst skynja með vel-
þóknun fágaðar útlínur í heildarmynd verksins. Ekki er þar með
sagt að lesandi verði endilega fyrir vonbrigðum; í ritgerð sem ég
vísaði til hér að framan mælir Helena Kadecková að nokkru leyti
fyrir munn hins hefðbundna lesanda í mati sínu á þeim verkum sem
hún telur marka „Upphaf íslenzkra nútímabókmennta“, þ. e. Vef-
aranum, Bréfi til Láru og „Hel“ Sigurðar Nordals:
Að nokkru leyti eru öll þrjú verkin ófullkomin. Ofullkomin að því leyti, að
áleitni hugsunarinnar gaf höfundum ekki tíma til að ganga frá uppbyggingu
sögunnar á hefðbundinn hátt. „Hel“ kallar höfundur sjálfur „aðeins brot“
af skáldsögu, „Bréf til Láru“ er ófönsuð syrpa, „Vefarinn mikli“ er mis-
heppnuð tilraun til klassískrar skáldsögu. Mér finnst allar þessar bækur
vera einskonar skáldskapur í smíðum frekar en heilsteypt verk. Þar má
rekja sköpunarferlið hrátt, skráning hugsana án mikilla bollalegginga um
form. Þessa „galla“ álít ég samt einmitt mesta kost listarinnar, og þeim að
þakka kom fram í íslenzkum bókmenntum eitthvað raunverulega nýstár-
legt.44