Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 199
SKÍRNIR
RITDÓMAR
405
inngangur með skrá um helstu útgáfur og heimildir, sem vitaskuld er ekki
ætlað að vera tæmandi. Við útgáfurnar er ekki fylgt neinni reglu um hverjar
teknar eru, stundum tekin með útgáfa Skuggsjár en stundum ekki. Galli er
að hvergi kemur fram fyrsta útgáfa hverrar sögu.
Þegar litið er yfir þessar skrár um heimildir verður manni ósjálfrátt hugs-
að til þess, að nú er dauð hin árlega bókaskrá um fornbókmenntir og fleira,
Bibliography of Old-Norse Icelandic studies, sem kom út í Kaupmanna-
höfn og náði yfir árin 1963-1980, og ekki er áhugi á að kaupa öll tímarit til
landsins sem birta greinar um þessi efni. Þetta hlýtur að verða rannsóknum
í norrænum fræðum hér á landi fjötur um fót í framtíðinni.
Skýringaheftin eru í handhægu og meðfærilegu gormabandi, og upp-
setningin er skýr. Er trúlega gott að hafa skýringar í sérstöku hefti. Annars
er höfuðkostur þeirra fram yfir flest rit af þessu tæi, að hér eru mörg landa-
kort, ættarskrár og skýringamyndir, sem oft hefur mjög skort í ritum sem
þessum. Helst hefði mátt bæta við ljósmyndum af sögustöðum. Kostur er
við skýringarnar að hægt er að vitna til blaðsíðutals í heildarútgáfunni um
efnisatriði sem koma fyrir í öðrum sögum, en hér sést eins og víðar að
Landnámu vantar og heildarnafnaskrá við útgáfuna. Til þess að dæma um
þessar skýringar hefði þurft að lesa allar sögurnar með skýringunum, en
það var ekki gert. Eftirtaldar villur sá ég í 2. hefti fyrir utan þær sem eru
auðlesanlegar í málið. Miðað er við blaðsíðutal heftisins en innan sviga eru
blaðsíðutöl þeirra síðna sem skýrðar eru: s. 74 (1183) er sagt aðHraunhöfn
sé á Langanesi, en er á Melrakkasléttu; s. 83 Harðar saga er sögð vera í Edi-
tiones Arnamagnæanæ 30, en er í þeirri röð sem Series A, vol. 6.; s. 84
(1253) Reykjadalur hinn nyrðri er sagður nú heita Flókadalur, en er Reyk-
holtsdalur; s. 200 ranglega er talað um 15. bindi Islenzkra fornrita í stað
14.; s. 248 á kortinu eru bæirnir Hvammur, Laugar og Sælingsdalstunga
ranglega settir svo nokkru munar. Eins og sjá má eru þessar villur ekki stór-
vægilegar en leiðinlegar og óþarfar.
Röð í útgáfunni og val sagna. Oft eru menn í vanda með að raða íslend-
inga sögum í safnútgáfur og viðhafa þá gjarnan sömu aðferð og Landnáma,
þ. e. að raða sögunum hringinn í kringum landið. I íslenzkum fornritum er
farið þannig að, en seinast hafðar þær sögur sem yngstar eru taldar. Svh.
velur þá leið að hafa allar sögur í einni stafrófsröð og er ekki nema gott um
það að segja. Menn þurfa þá ekki að leita lengi ef þeir muna ekki eftir hvar
sagan á að gerast. Ekki er heldur alltaf augljóst hvar sumum sögum á að
skipa í landfræðilega röð, t. d. Heiðarvíga sögu. Þekking manna á landa-
fræði Islands er mjög misjöfn og oft slæm, einkum meðal yngstu kynslóð-
arinnar, og fyrir það fólk er stafrófsröð heppileg.
Þá er að athuga hvaða sögur og þættir eru í útgáfu Svh. Fyrst er að nefna,
að Landnámu, íslendingabók og Kristni sögu vantar og er töluverð eftirsjá
í þeim, einkum Landnámu, því að oft eru sömu persónur nefndar þar og í
Islendinga sögum. Astæðan fyrir þessu er sennilega sú að samkvæmt því
sem sagt er í forspjalli er verið að kynna Islendinga sögur sem bókmenntir