Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 89
SKÍRNIR
FYRSTA NÚTÍMASKÁLDSAGAN
295
tákn jafnvægis og lífs í sögunni. Hún er engin algild mælistika „hins
mannlega“ og ég held að samúð verksins með henni sé alls ekki eins
einhlít og Halldór heldur fram.39 „Steinn, biddu mig ekki um að
verða fullkomna, því það þrái ég ekki, en segðu að ég megi trúa á
þig, því það er hið eina, sem ég þrái að mega“ (68). Oll þrá Diljár
beinist að Steini og verður að rótgróinni og brennandi þráhyggju;
Steinn er fyrir henni það sem Guð er fyrir Steini, nema hvað hún
vill sameinast drottnara sínum á annan hátt, vill leysa frumhvatir
hans úr læðingi annarra yfirskilvitlegra tákna. Hún stendur í raun
í trylltri valdabaráttu um fullkomnunarþrá Steins. „Taktu af þér
grímuna, Steinn, bað hún, því hún var ófresk á þessari stund og sá
hann nakinn bak við kenníngar hans“ (434). En Diljá er ekki að af-
hjúpa þann Stein sem þrifist gæti við hlið hennar í hjónabandi eða
mannfélagi, heldur líkamningu þeirrar „heiðnu“ guðsmyndar,
„holdgaða endurminníng guðsins í þér“ (435), sem er tákn frum-
þarfa og náttúrukrafts. Enda birtist Diljá okkur þannig:
Viðjar skynseminnar eru brotnar, blindur náttúrukrafturinn birtist í þess-
um næturaugum, alfrjáls á rústum Guðs og mannsins og í rauðum bjarma.
Persónuleikur hennar er gufaður út í tómið, þángað sem öll form gufa; hún
er ekki leingur manneskja, en vitrast hér sem líkamníng nafnlausra ragna í
mynd hinnar fyrstu og hinstu lífsveru, blindrar, hugsunarlausrar og skelfi-
legrar. (433)
Um stund gefur Steinn sig allan ástarbrunanum á vald. „Ást
mannsins til konunnar er hið einasta sanna í lífinu. Alt í lífi mínu er
lýgi, Diljá, Guð og Djöfullinn, Himinn og Helvíti, alt lýgi nema
þú“ (447). Alltaf er Steinn búinn að klófesta allan sannleikann.
Þetta á líka við um afstöðu hans til íslenskrar náttúru, sem er enn
eitt viðfang hinnar taumlausu þrár hans: „Fjallanáttúran íslenska er
unnustan mín og konan mín, lof mér að að deyja í faðmi hennar; lát
sál mína sameinast sál hennar í andlátinu!“ (200).
Raunar er sama hvar við grípum niður í söguna, hvarvetna eru
altæk sjónarmið ríkjandi og þau eru ætíð tengd spurningum um
vald yfir merkingu og manneskjum. Þetta gildir að sjálfsögðu einn-
ig um fasistann Salvatore, sem vísar raunar til Dostójevskís er hann
útmálar viðhorf sín: „hið hreinræktaða glæpamannseðli er æðsta
stig allrar mannlegrar fullkomnunar." Glæpir eru „útreiknaðir af
visku afbrigðasálarinnar, sem hlýtur að freista tilvistar mitt í sam-