Skírnir - 01.09.1988, Blaðsíða 98
304
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
sé að finna í höfði sér: „Meira að segja hugsanir mínar sitja í skipu-
lagðri röð í höfðinu utan á heilaberkinum“ (37).
En Tómasi mistekst að hólfa niður hugsanir sínar og heims-
mynd, innskotin eru ekki innskot, því þau eru ekki undirskipuð
annarri orðræðu í Verkinu. Hvað sem öllum skáletrunum og
prentmálstilfærslum líður, þá líður Tómas um þennan texta án þess
að hafa stjórn á honum. Það er ekkert sem gefur til kynna að „þjóð-
sögur“ hans séu ekki jafn „rétthár“ texti og hver annar. Tómas er
sú táknmynd sem heldur Verkinu saman, en hann afneitar því líka;
hann er fullur af textum sem neita að raða sér í það stigveldi merk-
ingar sem auðveldar okkur samfelldan, heildstæðan skilning. í
gegnum hann tala ótal manneskjur, hverskonar orðræður berast úr
samtíð og fortíð, þjóðlífi og einkahögum, nöldur af ýmsu tagi,
minningar um atburði sem ekki virðast skipta neinu máli, ýmsar
frásagnir í formi afþreyingar, kjaftasagna eða fornrar sagnahefðar.
Allt streymir þetta um Tómas en er sífellt á mörkum merkingar.
Orðræðurnar verða til sem texti hans án þess að hann geti staðsett
efnið fyrir viðtakandann. Flestar þessar orðræður eiga sér engar
skarpar útlínur heldur virðast þess eðlis að hverja þeirra mætti
spinna endalaust áfram; þær hætta einhvers staðar fremur en að
taka enda. Og Tómas er sífellt á mörkum þess að leysast upp sem
persóna í öllu þessu textaflóði. Má í raun skilja titil sögunnar sem
svo að Tómas sé hreinlega bók. „Hausinn er fullur af alls konar
letri, stóru og smáu, og á ótal bylgjulengdum“ (289).
Að txma táknin: á mörkum merkingar
Þetta leiðir hugann að örlögum persónunnar, sjálfsverunnar, í sög-
um sem þessum. Fyrr í þessari ritgerð nefndi ég að skilgreining
módernisma yrði að miðast við kreppuástand í merkingarmiðlun
verksins. Slík kreppa snertir auðvitað beinlínis tengsl sjálfsveru og
umheims. Einstaklingurinn notar sér táknkerfi umheimsins til
skilnings á honum og til að hafa samband við hann. Maðurinn þráir
að búa yfir heimsmynd sem jafnframt er sem heillegastur spegill
utan um miðlægt sjálf hans. Þetta er ósköp einfalt mál, rétt eins og
að vilja eiga einhvers staðar heima. Á sama hátt getum við hugsað
okkur að persóna eigi heima í skáldverki. En í þeim sögum, sem ég